Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Barkaþræðing byrjenda – samaburður á þremur aðferðum

Höfundar:
Bjarni Dagur Þórðarson, Hjatli Már Björnsson, Eric Contant, Nils Daníelsson

Inngangur: Hjá óstöðugum sjúklingum getur þurft að tryggja öndunarveg með barkaþræðingu. Barkaþræðing felur í sér að koma barkarennu á milli raddbanda og niður í barka og er þetta oft lífsbjargandi inngrip. Algengast er að nota barkakýlissjá til barkaþræðingar. Minna þekkt aðferð er að nota fingur til barkaþræðingar, en sú aðferð getur komið sér vel þegar erfitt er að nota barkakýlissjá. Til eru rannsóknir á árangri byrjenda í öndunarvegameðferðum með barkakýlissjá, en ekki hafa fundist fyrri rannsóknir á árangri með fingrum. Markmið rannsóknarinnar var að meta árangur læknanema án fyrri þjálfunar í öndunarvegameðferð í barkaþræðingu með hefðbundinni barkakýlissjá, með fingrum og með fingrum auk langs leiðara.
Efniviður og aðferðir: Öllum læknanemum á 1.-3. ári við Háskóla Íslands var boðið að taka þátt í rannsókninni. Þátttakendurnir horfðu á stöðluð kennslumyndbönd um hverja aðferð fyrir sig auk þess sem þeir fengu handleiðslu um hvernig hver aðferð væri gerð. Hver og einn framkvæmdi hverja aðferð þrisvar sinnum á æfingadúkku í öndunarvegameðferð í hermisetri þar sem skráð hvort tilraun heppnaðist.
Niðurstöður: Þátttakendur í rannsókninni voru 51 talsins. Í þriðju tilraun tókst barkaþræðing með fingrum ásamt löngum leiðara í 90% tilvika, með barkakýlissjá 65% og með fingrum í 53% tilvika.
Ályktanir: Mjög litla þjálfun virðist þurfa til að framkvæma barkaþræðingu með fingrum ásamt löngum leiðara. Í rannsókninni náðist í þriðju tilraun að barkaþræða í 90% tilfella. Niðurstöðurnar benda til þess að barkaþræðing með fingrum ásamt löngum leiðara getur verið heppilegri leið til að framkvæma barkaþræðingu fyrir lækna sem ekki hafa fullnægjandi þjálfun í að beita barkakýlissjá.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.