Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Árangursrík markaðssetning tóbaks: Vatnspípureykingar unglinga í Bissá, Gíneu-Bissá

Jónína Einarsdóttir, Aladje Baldé, Zeca Jandi, Hamadou Boiro and Geir Gunnlaugsson

Inngangur: Vatnspípureykingar tóbaks hófust á 16. öld í Persíu og Indlandi en ætlunin var að minnka hættu sem fylgdi tóbaksreykingum með því að leiða tóbaksreykinn gegnum vatn. Hugmyndin um að vatnspípureykingar séu hættuminni en sígarettureykingar lifir enn þrátt fyrir að rannsóknir sýni að svo sé ekki. Upp úr 1990 hófst alþjóðleg markaðssetning ávaxtatóbaks fyrir vatnspípur og beindist hún að ungu fólki og sérstaklega konum. Algengi vatnspípureykinga meðal unglinga 12-16 ára er breytilegt eftir heimsálfum: lægst í Afríku en hæst í Evrópu og Miðjarðarhafssvæðinu austanverðu. Engar upplýsingar eru til um vatnspípureykingar á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar er að skoða vatnspípureykingar meðal unglinga í Bissá, Gíneu-Bissá og áhrifaþætti á notkun þeirra.
Efniviður og aðferðir: Staðfærður Planet Youth spurningalisti var lagður fyrir slembiúrtak 14-19 ára nemenda (n=2,039) í 16 skólum í Bissá í júní 2017. Lýsandi tölfræði, líkindahlutfall með 95% öryggisbili og fjölþátta aðhvarfsgreining voru notuð til að greina áhrifaþætti.
Niðurstöður: Algengi fyrir lífstíðarreynslu af vatnspípureykingum var 17,7% og 15,0% fyrir neyslu innan <30 daga, án marktæks kynjamunar. Fjölþátta aðhvarfsgreining sýndi að fyrir báða hópa er bekkur (ekki aldur), neysla áfengis og reynsla af kynferðisofbeldi marktækir áhrifaþættir. Ályktan: Vísbendingar eru um að vatnspípureykingar fari vaxandi í Bissá. Enginn kynjamunur er á algengi vatnspípureykinga andstætt sígaretturreykingum, sennileg vísbending um áhrifaríka markaðsfærslu. Forvarnarstarf ætti að beinast að áhættuhegðun eins og vatnspípureikingum, sem er síður fordæmd en neysla annarra vímuefna. Það er áríðandi að hefja markvissa framkvæmd á Rammasamningi Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar um tóbaksvarnir. Eins mætti banna vatnspípureykingar í landinu eins og mörg Afríkuríki hafa gert á liðnum árum.  

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.