Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Andvanafæðingar fullburða barna á Íslandi 1996-2021. Hvers vegna dóu börnin?

Ragnheiður Bjarnadóttir, Þóra Steffenssen, Jóhanna Gunnarsdóttir, Alexander Smárason, Karin Pettersson and Nikos Papadogiannakis

Inngangur: Á undanförnum áratugum hefur áhættumat á meðgöngu aukist, skilgreindar áhættumeðgöngur hafa fengið sérstakt eftirlit í mæðravernd og fæðingin framkölluð þegar fullri meðgöngu var náð. Þetta á þátt í að tíðni framkallana fæðinga tvöfaldaðist á fáeinum árum eftir 2008. En hafa þessar breytingar fækkað andvanafæðingum fullburða barna? Hafa breytingarnar haft áhrif á hlutfallslega tíðni dánarorsaka og /eða fylgjuskemmda fullburða barna sem fæðast andvana?
Efniviður og aðferðir: Rýnt var í sjúkraskrár kvenna (n=125) sem greindust með dáið barn eftir 37 vikna meðgöngu á Íslandi á tímabilinu 1996-2021. Allar fylgjur fullburða barna voru endurskoðaðar af meinafræðingi og fylgjuskemmdirnar flokkaðar í 4 flokka eftir nýlegu kerfi (Amsterdam consensus). Orsök dauðsfallsins var síðan ákvörðuð með hliðsjón af Stokkhólmsflokkuninni (The Stockholm classification of stillbirth). Borin voru saman tvö 13 ára tímabil: 1996-2008 og 2009-2021
Niðurstöður: Alls fæddust 106.180 fullburða börn á rannsóknartímanum, þar af 125 andvana. Tíðni andvanafæðinga frá 37 vikum meðgöngu var því 1.18/1000 og var engin breyting milli fyrra ( n=63) og seinna ( n=62) tímabilsins, 1.19 vs. 1.15 p=0.89. Meirihluta dauðsfallanna mátti rekja til flæðistruflunar um naflastreng, fylgjuþurrðar (placental dysfunction) eða hvors tveggja. Fjölgun varð á léttum fylgjum (<10. centil) fyrir meðgöngulengd, fylgjum með bólguskemmdum án sýkingar (villitis of unknown etiology) og dauðsföllum vegna fylgjuþurrðar á síðara tímabilinu. Ekki fundust tengsl milli þess að barn væri of létt fyrir meðgöngulengd (SGA) og ákveðinna fylgjuskemmda. Ályktanir: Niðurstöðurnar koma á óvart og vekja spurningar um hvernig hægt væri að bæta greiningu á fylgjuþurrð. Gæti greining lífefnavísa gert okkur kleift bjarga fleiri fullburða börnum?

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.