Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhrif gerjaðra matvæla og bætiefna úr broddmjólk á upplifða streitu, þarmaflóru og bólguþætti í blóði – slembuð samanburðarransókn

Sigurbjörg Bjarnadóttir, Steina Gunnarsdóttir, Áki Guðni Karlsson, Jón Þór Pétursson, Siggeir Fannar Brynjólfsson, Hildur Sigurgrímsdóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Karla F Corral-Jara, Alexandra M Klonowski, Viggó Þór Marteinsson, Valdimar Th Hafstein and Bryndís Eva Birgisdóttir

Inngangur: Mataræði gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að heilsu og vellíðan og hefur kastljósinu nýlega verið beint að gerjuðum matvælum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort aukin neysla á gerjuðum matvælum eða inntaka fæðubótaefna úr gerjaðri kúabroddmjólk hefði áhrif á upplifða streitu, þarmaflóru og bólguþætti í blóði í samanburði við viðmiðunarhóp.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur, sem voru á aldrinum 50-70 ára var slembiraðað í hópana þrjá. Íhlutunartímabilið var 8 vikur. Matvælahópurinn átti að auka neyslu sína á gerjuðum matvælum í sex skammta á dag og bætiefnahópurinn tók inn tvö hylki daglega. Þátttakendur svöruðu spurningalistum, meðal annars um upplifða streitu (PSS), héldu matardagbók og gáfu blóð- og saursýni í upphafi, eftir fjórar vikur og átta vikur. Bólguþættir voru mældir með Luminex Multiplex Assay. Sá hluti þátttakenda sem skilaði öllum gögnum og gaf lífsýni (n=44) er greindur hér en frekari greiningar og greiningar á þarmaflóru verða kynntar á heilbrigðisvísindaþinginu.
Niðurstöður: Ekki var marktækur munur milli hópanna þriggja í bakgrunnsþáttum í upphafi rannsóknar (aldur, menntun o.s.frv.) (p>0.05), né á heildar PSS stigum fyrir og eftir rannsóknina (p>0.05). Marktæk lækkun var á bólguþættinum IFN-y í bæði matar- (p=0.045) og bætiefnahópnum (p=0.0025) og aukning í IL-10 í sömu hópum, þó aðeins marktæk í fæðuhópnum (p>0.05). Ekki fannst marktækur munur á CD40 Ligand, IL-8 eða MIP-1b (p>0.05).
Ályktanir: Þátttakendur sem juku neyslu sína á gerjuðum matvælum og fæðubótaefnum minnkuðu bólgusvörun en upplifð streita var svipuð fyrir og eftir rannsóknina. Áhugavert verður að skoða frekari úrvinnslu niðurstaðna, svo sem tengsl við þarmaflóru.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.