Sigurbjörg Bjarnadóttir, Steina Gunnarsdóttir, Áki Guðni Karlsson, Jón Þór Pétursson, Siggeir Fannar Brynjólfsson, Hildur Sigurgrímsdóttir, Sigurlaug Skírnisdóttir, Karla F Corral-Jara, Alexandra M Klonowski, Viggó Þór Marteinsson, Valdimar Th Hafstein and Bryndís Eva Birgisdóttir
Inngangur: Mataræði gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að heilsu og vellíðan og hefur kastljósinu nýlega verið beint að gerjuðum matvælum. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort aukin neysla á gerjuðum matvælum eða inntaka fæðubótaefna úr gerjaðri kúabroddmjólk hefði áhrif á upplifða streitu, þarmaflóru og bólguþætti í blóði í samanburði við viðmiðunarhóp.
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur, sem voru á aldrinum 50-70 ára var slembiraðað í hópana þrjá. Íhlutunartímabilið var 8 vikur. Matvælahópurinn átti að auka neyslu sína á gerjuðum matvælum í sex skammta á dag og bætiefnahópurinn tók inn tvö hylki daglega. Þátttakendur svöruðu spurningalistum, meðal annars um upplifða streitu (PSS), héldu matardagbók og gáfu blóð- og saursýni í upphafi, eftir fjórar vikur og átta vikur. Bólguþættir voru mældir með Luminex Multiplex Assay. Sá hluti þátttakenda sem skilaði öllum gögnum og gaf lífsýni (n=44) er greindur hér en frekari greiningar og greiningar á þarmaflóru verða kynntar á heilbrigðisvísindaþinginu.
Niðurstöður: Ekki var marktækur munur milli hópanna þriggja í bakgrunnsþáttum í upphafi rannsóknar (aldur, menntun o.s.frv.) (p>0.05), né á heildar PSS stigum fyrir og eftir rannsóknina (p>0.05). Marktæk lækkun var á bólguþættinum IFN-y í bæði matar- (p=0.045) og bætiefnahópnum (p=0.0025) og aukning í IL-10 í sömu hópum, þó aðeins marktæk í fæðuhópnum (p>0.05). Ekki fannst marktækur munur á CD40 Ligand, IL-8 eða MIP-1b (p>0.05).
Ályktanir: Þátttakendur sem juku neyslu sína á gerjuðum matvælum og fæðubótaefnum minnkuðu bólgusvörun en upplifð streita var svipuð fyrir og eftir rannsóknina. Áhugavert verður að skoða frekari úrvinnslu niðurstaðna, svo sem tengsl við þarmaflóru.