Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Mat á sveitadvöl í æsku

Aðalhöfundur: Jónína Einarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Geir Gunnlaugsson, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands.

Inngangur: Það var algengur íslenskur siður að senda börn í sveit yfir sumartímann sem þá ýmist dvöldu hjá fjölskyldu, vinum eða vandalausum. Ástæður fyrir sveitadvöl voru margþættar og tengdust aðstæðum barnanna eða almennum hugmyndum um mikilvægi þess fyrir börn að færu í sveit þar sem þau lærðu að vinna, kynnast náttúrunni og umgangast dýr í vöggu íslenskrar menningar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna mat fullorðinna Íslendinga á reynslu sinni af sveitadvöl í æsku.

Efniviður og aðferðafræði: Eigindleg gögn með á sjötta tug viðtala við einstaklinga sem höfðu farið í sveit. Spurningakönnun með lagskiptu slembiúrtaki úr Þjóðskrá, 18 ára og eldri (n=2000), framkvæmd í nóvember 2015 til janúar 2016 (svarshlutfall 66%).

Niðurstöður: Nánast níu af hverju tíu svarenda í spurningakönnuninni áttu „margar góðar minningar úr sveitinni“ og svöruðu játandi fullyrðingunni „sveitadvölin breytti mér og mínu lífi á jákvæðan hátt“. Flestir viðmælenda lögðu áherslu á jákvæðar hliðar sveitadvala þó að hún hafi ekki alltaf verið létt. Eins gat sama svaranda fundist mikill munur eftir sveitabæ en sumir dvöldu á mörgum. Um tíundi hver svarandi reyndist ósáttur við dvöl sína m.a. vegna heimþrár, ofbeldis, verkefna sem þeir réðu ekki við, vinnuþrælkunar og skorti á samráði um sveitadvölina.

Ályktanir: Mikill meirihluti þeirra sem fór í sveit í æsku leið vel og dvölin reyndist þeim lærdómsrík. Hún var þó ekki alltaf auðvel og of stór hópur varð fyrir illri meðferð. Siðurinn að senda börn í sveit er á undanhaldi. Gangi hann í endurnýjun lífdaga þarf að huga að vellíðan og öryggi barnanna.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.