Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Líkamssamsetning og frávik í blóðgildum barna í Heilsuskóla Barnaspítalans

Aðalhöfundur: Anna Rún Arnfríðardóttir
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild Háskóla Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ragnar Grímur Bjarnason, Læknadeild Háskóla Íslands, Barnaspítali Hringsins. Tryggvi Helgason, Barnaspítali Hringsins.

Inngangur: Offita barna hefur verið ört vaxandi heilbrigðisvandamál síðan um miðja síðustu öld. Heilsuskóli Barnaspítalans aðstoðar börn með offitu og fjölskyldur þeirra við að bæta lífsvenjur sínar og heilsu. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif líkamssamsetningar barnanna á árangur offitumeðferðar og tilvist frávika í blóðgildum.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra barna sem höfðu farið í líkamssamsetningarmælingu með BIA tækni (e. bioelectric impedance analysis) á vegum Heilsuskóla Barnaspítalans frá 24. ágúst 2016 til og með 21. febrúar 2020 (n=285). Samband líkamssamsetningar og meðferðarárangurs var metið með lógistískri aðhvarfsgreiningu. Árangur meðferðar var skilgreindur út frá breytingu á staðalfrávikastigi líkamsþyngdarstuðuls milli líkamssamsetningarmælinga sem teknar voru með 9–15 mánaða millibili (n=64). Tengsl líkamssamsetningar og frávika í blóðgildum voru metin með t-prófi fyrir óháða hópa (n=178). Niðurstöður blóðrannsókna fengust hjá Upplýsingatæknisviði Landspítala.

Niðurstöður: Gagnlíkindi þess að barn næði minni eða engum árangri í meðferð skv. skilgreiningu jókst um 71,6% þegar aldur barns við upphaf meðferðar jókst um 1 ár (ÖB: 1,23–2,38; p<0,005). 80,1% barnanna mældust með skert insúlínnæmi (HOMA-IR > 3,42) og var meðal-HOMA-IR þeirra 7,31 (± 4,97).

Ályktanir: Meðalbiðtími barna eftir offitumeðferð á Íslandi í dag er u.þ.b. eitt ár en niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sá biðtími geti haft mikil áhrif á árangur meðferðarinnar. Ljóst er að meirihluti barna sem hefja offitumeðferð hjá Heilsuskóla Barnaspítalans séu þegar farin að kljást við afleiðingar og fylgikvilla offitu. Mikilvægt er meira fé sé veitt til að auka meðferðarúrræði fyrir börn með offitu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest

Sækja PDF

Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.