Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Líkamleg virkni barna með barnagigt á Íslandi

Aðalhöfundur: Auður Kristjánsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Bjarg Endurhæfing

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þjóðbjörg Guðjónsdóttir, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands. Svanhildur Arna Óskarsdóttir, Landakot, Landspítala. Judith Amalía Guðmundsdóttir, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Sólrún W. Kamban, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Zinajda Alomerovic Licina, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Drífa Björk Guðmundsdóttir, Barnaspítali Hringsins, Landspítali.

Inngangur: Lítið er vitað um líkamlega virkni barna með gigtsjúkdóminn barnagigt á Íslandi. Niðurstöður erlendra rannsókna eru misvísandi hvað varðar líkamlega virkni þessa hóps samanborið við jafnaldra. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi hæfilegrar líkamlegrar virkni fyrir börn með barnagigt ekki síður en fyrir jafnaldra þeirra. Markmið þessarar rannsóknar var að mæla líkamlega virkni barna með barnagigt á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: 28 börn með barnagigt og 35 börn á sama aldri tóku þátt. Börnin voru 8–18 ára og pöruð með tilliti til aldurs og kyns. Líkamleg virkni var mæld með hreyfimælinum activPALTM. Mælikvarði daglegrar líkamlegrar virkni voru skrefafjöldi, mínútum varið í líkamlega virkni af meðal- eða mikilli ákefð og fjöldi stöðubreytinga úr sitjandi í standandi stöðu. Mælingar stóðu yfir í sjö sólarhringa hjá hverju barni. Fullgildir mælingardagar voru því fjórir samfelldir virkir dagar og tveir samfelldir dagar yfir helgi. Blönduð dreifnigreining var notuð við tölfræðiúrvinnslu.

Niðurstöður: Ekki var munur á hópunum í aldri, hæð, þyngd, líkamsþyngdarstuðli eða kynjahlutfalli. Ekki var marktækur munur á líkamlegri virkni milli hópanna mældri í skrefafjölda (p=0,83), tíma varið í líkamlega virkni af meðal- eða mikilli ákefð (p=0,921) eða fjölda stöðubreytinga (p=0,968). Marktækur munur var á öllum þremur breytum milli helga og virkra daga (p<0,001). Ekki voru marktæk víxlhrif á milli óháðu breytanna, hópa og tímasetninga, fyrir áhrif þeirra á skrefafjölda (p=0,894), líkamlega virkni af meðal eða mikilli ákefð (p=0,6) eða stöðubreytingar (p=0,460).

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda til þess að líkamleg virkni barna með barnagigt á Íslandi sé sambærileg líkamlegri virkni jafnaldra þeirra.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.