Aðalhöfundur: Guðrún Kristjánsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Kvenna- og barnaþjónusta Landspítala
Inngangur: Regluleg líkamleg hreyfing er talin geta bætt svefngæði einstaklinga. Rannsóknir á þessu sviði hafa þó verið nokkuð misvísandi. Tilgangur rannsóknarinnar var að athuga tengsl líkamlegrar hreyfingar við svefngæði og þreytu meðal íslenskra grunnskólanema.
Efniviður og aðferðir: Landskönnunin Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) fór fram árið 2018 meðal nemenda í 6., 8. og 10. bekk. 7.159 nemendur á landinu öllu svöruðu stöðluðum spurningalista. Fjöldi svarenda var 55,5% af heildarfjölda nemenda í grunnskólum landsins og heimtur (svarhlutfall) í þátttökuskólunum voru yfir 80%. Nemendurnir voru spurðir hvort þeir hreyfðu sig í samtals 60 mínútur daglega og hvort þeir iðkuðu hreyfingu með áreynslu af miðlungs eða mikilli ákefð tvisvar eða oftar í viku. Eins voru þeir spurðir um svefnlengd og hve oft þeir ættu erfitt með að sofna eða vöknuðu upp á nóttunni. Loks voru þeir spurðir hve oft þeir væru þreyttir á morgnana á virkum dögum og hve oft þreyttir í skólanum á daginn.
Niðurstöður: Stór hluti grunnskólanema náði ekki alþjóðlegum viðmiðum um daglega hreyfingu og svefn og glímdi við morgun- og dagþreytu. Almenn tengsl reyndust milli hreyfingar og svefngæða og þreytu. Nemendur sem hreyfðu sig daglega og hreyfðu sig af ákefð tvisvar eða oftar í viku náðu oftar ráðlögðum svefni, gekk betur að sofna, vöknuðu síður upp á nóttunni og fundu sjaldnar til morgun- og dagþreytu.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar samræmast hugmyndum fræðimanna um að líkamleg hreyfing ungmenna stuðli að bættum svefngæðum og minni þreytu yfir daginn. Vinna þyrfti samhliða að leiðum til að bæta hreyfi- og svefnmynstur íslenskra barna og unglinga.