Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Upplýsingagjöf varðandi lífshætti og aðstoð til einstaklinga í krabbameinsmeðferð

Aðalhöfundur: Jóhanna Eyrún Torfadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Miðstöð í lýðheilsuvísindum, Læknadeild, Háskóla Íslands, Krabbameinsfélag Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Sigrún Elva Einarsdóttir, Krabbameinsfélag Íslands. Birna Þórisdóttir, Krabbameinsfélag Íslands. Ásgeir R. Helgason, Krabbameinsfélag Íslands, Háskólinn í Reykjavík. Halla Þorvaldsdóttir, Krabbameinsfélag Íslands.

Inngangur: Rannsóknir sýna að lífshættir, svo sem næring og hreyfing, hefur áhrif á framgang sjúkdómsins meðal einstaklinga með krabbamein.

Efniviður og aðferðir: Öllum 18 ára og eldri sem greindust með krabbamein á árunum 2015 til 2019 var boðið að taka þátt í rannsókn á vegum Krabbameinsfélags Íslands sem heitir Áttavitinn – þín reynsla skiptir máli. Þátttakan fólst í að svara spurningum, meðal annars um aðdraganda greiningar, meðferð og lífsgæði.

Niðurstöður: Á tímabilinu júní 2020 til febrúar 2021 svöruðu 1586 þátttakendur spurningalistanum, 57,5% þeirra voru konur og 42,5% karlar. Meðalaldur þátttakenda var 63±11 ár (spönn: 23-85 ára). Rúm 70% þátttakenda hafði lokið krabbameinsmeðferð og svör þessa hóps varðandi upplýsingagjöf og aðstoð meðan á meðferð stóð voru metin. Spurt var hvort heilbrigðisstarfsfólk hefði rætt við viðkomandi um lífshætti og hlutfall þeirra sem sögðust hafa fengið nægjanlegar upplýsingar var 41% varðandi hreyfingu, 30% varðandi líkamlega endurhæfingu, 27% varðandi svefn, 23% varðandi mataræði almennt, 16% varðandi næringartengd vandamál og 15% varðandi áfengisneyslu. Einnig voru þátttakendur spurðir hvort reglulega hefði verið metin þörf fyrir tiltekna aðstoð meðan á krabbameinsmeðferð stóð og svöruðu 19% játandi fyrir sjúkraþjálfun, 15% fyrir næringarráðgjöf og 16% fyrir sálfræðiráðgjöf.

Ályktanir: Árlega greinast um 1700 manns með krabbamein og mun þessi hópur fara stækkandi á komandi árum vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar og aukins fólksfjölda. Mikilvægt er að einstaklingar með krabbamein hafi aðgengi að faglegum upplýsingum og þjónustu í tengslum við lífshætti og venjur í samræmi við aðstæður hvers og eins. Mikil tækifæri eru til staðar varðandi að bæta þennan þátt í krabbameinsmeðferð.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.