Aðalhöfundur: Rúnar Vilhjálmsson
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands
Inngangur: Þó dregið hafi úr slysatíðni barna og unglinga á undanförnum árum er tíðnin enn umtalsverð. Rannsóknin athugar slysatíðnina í einstökum hópum nemenda í efri bekkjum íslenskra grunnskóla. Jafnframt er athugað hvort rekja megi mun á slysatíðni í hópunum til íþrótta eða áhættuhegðunar.
Efniviður & aðferðir: Landskönnunin Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) fór fram árið 2018. Svarendur (N=7159) voru 55,5% af heildarfjölda nemenda í grunnskólum landsins og heimtur (svarhlutfall) í þátttökuskólunum voru yfir 80%. Nemendurnir voru spurðir hvort þeir hefðu slasast eða meiðst og þurft að leita til læknis eða hjúkrunarfræðings á síðastliðnum 12 mánuðum. Þeir voru einnig spurðir um aldur, kyn, fjölskyldugerð, erlendan eða innlendan uppruna foreldra, efnahag fjölskyldu og búsetu. Þá voru þeir spurðir um dagafjölda í líkamlegri hreyfingu og í skipulögðum íþróttum. Loks voru þeir spurðir um tíðni áfengisneyslu, sígarettureykinga og kannabisnotkunar um ævina og hve oft þeir hefðu lent í slagsmálum síðastliðna 12 mánuði.
Niðurstöður: Slysatíðnin var hærri hjá piltum en stúlkum, hærri hjá yngri en eldri nemendum, hærri hjá nemendum af innlendum en erlendum uppruna, og hærri hjá nemendum í betur stæðum fjölskyldum samanborið við þá lakar settu. Þessi hópamunur á slysatíðni skýrðist af ólíkri iðkun hreyfingar og íþrótta og ólíkri tíðni áfengisnotkunar og slagsmála í hópunum, en bæði íþróttirnar og áhættuhegðunin tengdust aukinni slysatíðni.
Ályktanir: Leggja þyrfti aukna áherslu á slysavarnir meðal grunnskólanemenda, ekki síst í hópum með hæstu tíðnina. Slíkt forvarnarstarf ætti að beinast að áhættuhegðun ungmennanna og öryggismálum og þjálfun í tengslum við hreyfingu og íþróttir.