Höfundar:
Kári Árnason, Dr. Kristin Briem, Dr. Atli Ágústsson
Inngangur: Mikilvægi hreyfikeðjunnar fyrir hagkvæma kasthreyfingu í handknattleik er vel þekkt en lítið er vitað um hvaða áhrif takmarkaður styrkur og afl í neðri útlimum og bolvöðvum hefur á þróun axlarmeiðsla á meðal handknattleiksmanna. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna tengsl á milli styrks og afls í neðri útlimum og bolvöðvum og styrks í axlarvöðvum og axlarmeiðsla á meðal íslenskra handknattleiksmanna.
Efniviður og aðferðir: Fjörutíu og tveir leikmenn úr efstu deild karla í handknattleik tóku þátt í rannsókninni. Hámarksstyrkur í neðri útlimum og axlarvöðvum (inn og útsnúningsvöðvum) og hámarks afl í bolvöðvum var mælt í upphafi keppnistímabilsins 2022-23. Algengi og alvarleiki axlarmeiðsla var metið vikulega á meðan deildarkeppni stóð með spurningalistanum “The Oslo Sports Trauma Research Center overuse questionnaire” (OSTRC-O2). Tengsl á milli niðurstaðna úr styrktar- og aflmælingum í upphafi tímabilsins og meðaltals skors á OSTRC-O2 spurningalistanum voru síðan metin.
Niðurstöður: Veik en tölfræðilega ómarktækt fylgni var á milli mælinga á hámarksstyrk í neðri útlimum (r = -0.204) og hámarksafls í bolvöðvum (r = -0.253) og skors á OSTRC-O2 spurningalistanum. Tölfræðilega marktæk miðlungs fylgni var á milli mælinga á hámarksstyrks í neðri útlimum og hámarksstyrks í axlarinnsnúnings- (r = 0.434, p = 0.003) og útsnúningsvöðvum (r = 0.4, p = 0.006).
Ályktanir: Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa til kynna möguleg tengsl á milli hámarksstyrks í neðri útlimum og hámarks afls í bolvöðvum og axlarmeiðsla á meðal íslenskra handknattleiksmanna. Vísbendingar eru því um mikilvægi styrks í neðri útlimum og afls í bolvöðvum fyrir hagkvæma notkun axlarinnar í kasthreyfingu í handknattleik.