Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Hefur aukin líkamsþyngd barnshafandi kvenna áhrif á útkomu fæðingar? Afturvirk ferilrannsókn

Árný Anna Svavarsdóttir, Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir and Berglind Hálfdánsdóttir

Inngangur: Offita er mikil lýðheilsuáskorun um allan heim, sérstaklega hjá konum á barneignaraldri. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort aukin líkamsþyngd barnshafandi kvenna í upphafi meðgöngu hafi áhrif á útkomu fæðingar
Efniviður og aðferðir: Um afturvirka ferilrannsókn er að ræða á öllu þýði kvenna sem fæddu einbura á Landspítala frá 1. janúar 2022 – 31. desember 2022 við meðgöngulengd ≥ 22 vikur (n = 3051). Helstu útkomubreytur voru fæðingainngrip og fylgikvillar móður en útkomubreytur barns voru einnig skoðaðar. Konur í kjörþyngd (LÞS 18,5-24,99) voru annars vegar bornar saman við konur í ofþyngd (LÞS 25-29,99) og hins vegar konur með offitu (LÞS ≥30). Notuð var lýsandi tölfræði til að lýsa bakgrunnsbreytum og útkomubreytum. Tíðni og meðaltöl bakgrunnsbreyta og útkomubreyta voru borin saman með kí-kvaðratprófum og t-prófum.
Niðurstöður: Marktækt fleiri konur í ofþyngd og með offitu fóru í framköllun fæðingar og bráðakeisaraskurð og þeim blæddi meira eftir fæðingu (≥ 500 ml, ≥ 1000 ml) borið saman við konur í kjörþyngd. Börn þeirra voru þyngri og með meira höfuðummál, voru oftar þungburar (≥ 4500 gr) og fengu oftar Apgar stig ˂ 7 við 1 mínútur. Konur með offitu fóru marktækt oftar í valkeisaraskurð miðað við konur í kjörþyngd. Miðað við konur í kjörþyngd þá fæddu marktækt færri konur í ofþyngd og með offitu með sogklukku og sjaldnar var gerð hjá þeim spangarklipping.
Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að aukin líkamsþyngd móður geti haft neikvæð áhrif á útkomu fæðingar og áhrifa þess gætir bæði hjá konum í ofþyngd sem og með offitu.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.