Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Líkamleg færni eldri Norðlendinga og hreyfing á lífsleiðinni: Hefur búseta í dreifbýli eða þéttbýli áhrif?

Aðalhöfundur: Sólveig Ása Árnadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ; Rannsóknarstofa í hreyfivísindum, námsbraut í sjúkraþjálfun, HÍ

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Lára Einarsdóttir, Námsbraut í sjúkraþjálfun, læknadeild, heilbrigðisvísindasviði HÍ; Sjúkraþjálfun Fossvogi, Landspítala. Árún K. Sigurðardóttir, Hjúkrunarfræðideild, heilbrigðisvísindasviði, HA; Deild Mennta og vísinda, Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Inngangur. Markmið verkefnisins var að rannsaka líkamlega færni eldri einstaklinga, sem bjuggu heima í dreifbýli eða þéttbýli, og hvernig sú færni tengdist „hreyfisögu“ þeirra á lífsleiðinni.

Efniviður og aðferð. Lýðgrunduð þversniðsrannsókn á 65-92 ára Norðlendingum (N=175, 43% konur, 40% úr dreifbýli). Gagna var aflað 2017-2018 með stöðluðum viðtölum og mælingum. Eftirfarandi breytur endurspegluðu líkamlega færni: Grunnhreyfifærni metin í sek á tímamældu upp og gakk prófi (TUG), byltuhætta (TUG ≥12 sek), bylta á síðasta ári (≥1 bylta/ári) og endurteknar byltur (≥2 byltur/ári). Hreyfisaga byggði á sjálfmati á líkamlegri áreynslu á unglingsaldri (12-19 ára), ung-fullorðinsaldri (20-39 ára), miðjum aldri (40-64 ára) og á efri árum (≥65 ára). Samanburður eftir búsetu byggði á ópöruðu t-próf, Mann-Whitney U prófi og kí-kvaðrat prófi. Tengsl hreyfisögu við líkamlega færni voru rannsökuð með aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður. Miðað við þéttbýlisbúa, þá lýstu dreifbýlisbúar meiri hreyfingu á öllum aldursskeiðum, voru líklegri til að hafa dottið á síðasta ári og teljast í byltuhættu. Hjá þéttbýlisbúum voru sjálfstæð tengsl milli byltu á síðasta ári og minni hreyfingar á miðjum aldri. Hjá dreifbýlisbúum voru sjálfstæð tengsl á milli endurtekinna bylta á síðsta ári og að vera karlmaður. Hjá dreifbýlisbúum voru sjálfstæð tengsl á milli betri grunnhreyfifærni og meiri hreyfingar á efri árum. Byltuhætta tengdist ekki hreyfisögu, en hjá dreifbýlisbúum hafði hún sjálfstæð tengsl við hærri aldur þátttakenda.

Ályktanir. Niðurstöðurnar nýtast við skipulag heilsueflandi þjónustu í dreifbýli og þéttbýli, með áherslu á líkamlega færni og byltuvarnir á efri árum. Að auki hvetja þær til frekari rannsókna á hreyfifærni og umhverfisáskorunum í lífi eldri dreifbýlisbúa.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.