Aðalhöfundur: Marína Rós Levy
Vinnustaður eða stofnun: Læknadeild, Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Valtýr Thors, Barnaspítali Hringsins, Háskóli Íslands. Sigríður Haralds Elínardóttir, Embætti Landlæknis. Alma D. Möller, Embætti Landlæknis. Ásgeir Haraldsson, Barnaspítali Hringsins, Háskóli Íslands.
Inngangur: Dánarhlutfall barna er mikilvægur mælikvarði á heilbrigðisástand þjóða, en á Íslandi er það með því lægsta sem gerist í heiminum. Markmið rannsóknarinnar var að meta breytingu á dánarhlutfalli barna á Íslandi eftir kyni og aldri og greina dánarorsakir þeirra á rannsóknartímabilinu.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin náði til allra íslenskra barna frá fæðingu að 18 ára aldri sem létust á tímabilinu 1.jan 1971 til og með 31.des 2018. Upplýsingar um þau 2003 börn sem létust á tímabilinu voru fengnar úr Dánarmeinaskrá Embættis Landlæknis, sjúkraskrám og/eða krufningarskýrslum frá Landspítala. Tölur um fjölda lifandi barna fengust hjá Hagstofu Íslands. Poisson línuleg aðhvarfsgreining var notuð til að greina lækkun dánarhlutfalls eftir kyni. Til að meta fækkun dauðsfalla innan orsaka var kí-kvaðrat próf notað.
Niðurstöður: Dánarhlutfall drengja lækkaði um 88%, úr 1,5 í 0,18:1000, árleg lækkun um 4,3% (ÖB:0,95-0,96). Dánarhlutfall stúlkna lækkaði um 81%, úr 0,9 í 0,17:1000, árleg lækkun um 3,4% (ÖB:0,96-0,98). Dánarhlutfall barna fyrir fimm ára aldur lækkaði um 89%, úr 3,5 í 0,4:1000 fyrir drengi og úr 2,8 í 0,3 fyrir stúlkur, árleg lækkun um 4,4% (ÖB:0,95-0,96). Marktæk fækkun var á dauðsföllum vegna burðarmálskvilla, slysa, meðfæddra sjúkdóma, sýkinga og krabbameina (p<0,0001). Ekki var lækkun á dánarhlutfalli vegna sjálfsvíga þar sem einnig var marktækur kynjamunur (p<0,0001).
Ályktanir: Lækkun var á dánarhlutfalli barna á tímabilinu og hefur tekist að fækka fyrirbyggjanlegum dauðsföllum verulega, þökk sé framförum í heilbrigðisvísindum, bættri heilbrigðisþjónustu og forvörnum. Niðurstöðurnar undirstrika einnig mikilvægi þess að auka vitund barna um geðheilbrigði, fjölga úrræðum fyrir þau sem þurfa aðstoð og leiða vonandi til áframhaldandi fækkunar á ótímabærum dauðsföllum.