Aðalhöfundur: Ragna Benedikta Garðarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Sálfræðideild Háskóla Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Heiðrún Una Unnsteinsdóttir, MS nemi. Hagnýt Sálfræði, Sálfræðideild Háskóla Íslands. Hrund Ólöf Andradóttir, Umhverfisverkfræði, Háskóla Íslands. Þröstur Þorsteinsson, Umhverfis- og auðlindafræði & Jarðvísindastofnun, HÍ.
Inngangur: Óheft notkun Íslendinga á flugeldum um áramót veldur sýnilegri og áþreifanlegri loftmengun. Samkvæmt kenningum umhverfissálfræðinga ætti sýnileiki mengunarinnar að draga úr hegðuninni, en það gerir hann ekki. Þvert á móti er hegðuninni mögulega viðhaldið með þeirri miklu skynörvun og augnabliksánægju sem flugeldar veita. Hegðunin er líkari fíknihegðun þar sem ánægjan er skynseminni og afleiðingunum yfirsterkari. Flugeldar eru því áhugavert rannsóknarefni fyrir umhverfissálfræðinga.
Aðferð: Viðhorf Íslendinga til flugeldanotkunar og -aðhalds voru rannsökuð með þjóðarkönnum (N = 838) í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Þar voru stök atriði notuð til að mæla gildismat, viðhorf og hegðun. Um þá rannsókn má lesa hér https://www.mdpi.com/2071-1050/12/14/5867. Rannsóknin var svo endurtekin með ítarlegri mælitækjum, en með úrtaki sem ekki hefur sama alhæfingargildi (N =249). Rannsóknirnar tvær hafa því ólíka styrkleika og galla, önnur með betra ytra rannsóknarréttmæti og hin með betra hugtakaréttmæti.
Niðurstöður: Kyn, aldur, menntun og stjórnmálaskoðanir spá fyrir um flugeldanotkun. Fórnfýsi (e. altruism) ætti að spá fyrir um vistvænni hegðun, en spáir hér fyrir um kaup á flugeldum. Það má útskýra með þeirri séríslensku leið að fjármagna fórnfúst starf með sölu mengandi efna. Nautnahyggja (e. hedonism) hefur lang mest vægi í viðhorfum Íslendinga til flugeldanotkunar og andstöðu við strangari reglur um flugeldanotkun. Þótt fólk hafi ánægju af flugeldum er meirihluti hlynntur því að hefta þurfi sölu flugelda.
Ályktanir: Þessa togstreitu langana annars vegar og skynsemi hins vegar túlkum við sem kall fólks eftir meira aðhaldi á hegðun. Niðurstöður gefa til kynna að ekki er hægt að skýra flugeldanotkun Íslendinga með sömu kenningum og umhverfissálfræðingar hafa notað til að útskýra aðra mengandi hegðun.