Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Aukin öryggiskennd í einangrun þegar heilsulæsi er betra: Mat sjúklinga með COVID-19 á Íslandi

Aðalhöfundur: Brynja Ingadóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Björk Bragadóttir, Meðferðarsvið Landspítala. Helga Jónsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Meðferðarsvið Landspítala. Katrín Blöndal, Aðgerðasvið Landspítala. Sigríður Zoëga, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Aðgerðasvið Landspítala. ElínJ.G. Hafsteinsdóttir, Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala.

Inngangur: COVID-19 faraldurinn setti almenning og hina smituðu í nýjar aðstæður sem áttu sér engin fordæmi. Mikil, og á tíðum misvísandi upplýsingagjöf fór fram í fjölmiðlum og jafnframt þurftu smitaðir að sinna sjálfsumönnun í einangruninni. Til að geta nýtt sér heilbrigðistengdar upplýsingar á árangursríkan hátt þarf fólk að búa yfir góðu heilsulæsi. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna heilsulæsi og öryggiskennd, meðan á einangrun stóð, meðal einstaklinga sem fengu COVID-19 í fyrstu bylgju faraldursins.

Efniviður og aðferðir: Þetta var þversniðskönnun meðal einstaklinga sem fengu þjónustu COVID-19 göngudeildar Landspítala í ≥14 daga, frá upphafi til 15. júní. Öryggiskennd var metin með mælitækinu Sense of Security (15 atriði, mögulegt meðalskor 1-6, hærra skor=meiri öryggiskennd). Heilsulæsi var metið með evrópska heilsulæsislistanum (HLS-EU-Q16_IS; 16 atriði, heildarskor 0-16 auk flokkunar í ófullnægjandi (0-8), takmarkað (9-12) og fullnægjandi (13-16) heilsulæsi). Mæld voru tengsl öryggiskenndar og heilsulæsis auk tengsla hvors þáttar fyrir sig við bakgrunn þátttakenda.

Niðurstöður: Þátttakendur (N=951, meðalaldur 48 (sf 15) ár, 57% konur) mátu öryggiskennd sína að meðaltali  5,2 (sf 0,8), munur var á milli hópa eftir menntun (p<0,01). Heilsulæsi mældist M 14,9 (sf 2,0), fullnægjandi hjá 89,5%, meira hjá konum (p<0,01) og hækkaði með meiri menntun (p<0,05). Öryggiskennd var minnst hjá fólki með ófullnægjandi heilsulæsi (M 4,2, sf 0,9) og mest hjá fólki með fullnægjandi heilsulæsi (M 5,3 sf 1,73), p<0,01.

Ályktun: Þrátt fyrir veikindi og einangrun í heimahúsi vegna COVID-19 mátu þátttakendur öryggiskennd sína góða. Mikilvægt er fyrir öryggiskennd sjúklinga að hugað sé að heilsulæsi þeirra þegar heilbrigðistengdum upplýsingum er miðlað.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.