Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Mat á viðhorfi lyfjafræðinema til hermikennslu

Freyja Jónsdóttir and Helga Kristinsdóttir

Inngangur
Hermikennsla er kennsluaðferð sem er í auknum mæli nýtt í heilbrigðisvísindum. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi. Kennsluaðferðin felst í að líkja eftir raunverulegum aðstæðum með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu.

Markmið
Markmið rannsóknar var að kanna viðhorf lyfjafræðinema til hermikennslu.

Aðferðir
Þátttakendur voru lyfjafræðinemar í Háskóla Íslands í klínískri lyfjafræði vormisseri 2024. Lyfjafræðinemar svöruðu rafrænum spurningarlista í gegnum REDCap að lokinni hermikennslu í Hermisetrinu HermÍS í Eirbergi. Notast var við spurningarlista sem samanstóð af 12 spurningum á Likert-kvarða sem mátu staðhæfingar um hermikennslu, líkt og gagnsemi, raunveruleika og færni. Tveimur opnum spurningum var einnig bætt við. Lýsandi tölfræði var notuð til að greina niðurstöðurnar.

Niðurstöður
Svarhlutfall þátttakenda var 100% (12/12), 75% voru konur. Niðurstöður sýndu að allir þátttakendur voru annað hvort mjög sammála eða sammála því að þau hafi lært mikið af hermikennslunni og töldu kennsluna koma til með að nýtast í klínísku starfi og að auki muni kennslan stuðla að auknu öryggi sjúklinga í klínísku starfi. Að auki töldu allir þátttakendur að faglegt sjálfstraust hafi aukist við kennsluna. Meirihluti þátttakenda (9/12, 75%) töldu hermikennsluna hafa jákvæð áhrif á færni í teymisvinnu. Allir þátttakendur töldu hermikennsluna raunverulega/trúverðuga.

Ályktun:
Lyfjafræðinemar höfðu jákvætt viðhorf til hermikennslu og töldu hana efla faglegt sjálfstraust, stuðla að auknu öryggi sjúklinga og færni í teymisvinnu. Sérstaka áherslu ætti að leggja á að bjóða upp á aukna hermikennslu í lyfjafræðinámi sem og öðrum heilbrigðisfögum.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.