Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Áhrif atferlisíhlutunar á foreldrafærni: Hlutlægt mat á foreldrafærni með notkun GAPS listans

Tara Kristín Kjartansdóttir and Zuilma Gabríela Sigurðardóttir

Í gegnum tíðina hafa viðhorf og venjur samfélagsins haft áhrif á uppeldisaðferðir og aðstæður barna. Vanræksla og ofbeldi fyrstu æviárin geta haft gífurlega mikil áhrif á lífsgæði barna. Foreldrafærni skiptir lykilmáli þegar litið er til aðlögunarfærni barna og hvernig þeim vegnar í framtíðinni. Slök foreldrafærni getur haft slæmar afleiðingar, bæði þegar litið er til lengri og skemmri tíma (Taylor, Eisenberg og Spinrad, 2013).
Tilgangur þessarar rannsóknar var að prófa erlenda matslistann „Global assessment of parenting skills“ eða GAPS, sem var hannaður af Project 12-Ways til að meta foreldrafærni og samskipti á hlutlægan hátt í tengslum við rútínur (Guastaferro og Lutzker, 2021). Listinn var þýddur af Svanhildi Ólöfu Sigurðardóttur (2021) og nefndur „Almennt mat á foreldrafærni“ og er þetta fyrsta rannsóknin á notkun matslistans hér á landi.
Fjölskyldan sem tók þátt í þessari rannsókn er skjólstæðingur Keðjunnar sem er stuðningsúrræði á vegum Reykjavíkurborgar. Fjölskyldan er íslensk og á sögu um vanrækslu barna sinna. Aðferðum hagnýtrar atferlisgreiningar var beitt við innleiðingu inngrips sem fól meðal annars í sér skýr fyrirmæli, sýnikennslu, hlutverkaleik, leiðbeiningar og hrós. Margfalt grunnskeiðssnið milli rútína var notað til þess að mæla árangur inngripsins. GAPS matslistinn var notaður til þess að mæla foreldrafærni í tengslum við rútínur á öllum tilraunaskeiðum. Inngrip var innleitt í þremur rútínum. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að atferlisíhlutun og notkun GAPS matslistans geta aukið foreldrafærni í tengslum við rútínur og samskipti.
Foreldrafærni jókst í öllum rútínum og viðhélst yfir tíma. Einnig sýndi mat á félagslegu réttmæti að þátttakanda fannst inngripið áhrifaríkt og gagnast fjölskyldunni vel.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.