Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Faraldsfræði skamm- og langtímanotkunar ópíóíða í kjölfar innlagnar á lyflækningadeild

Ína Lísa Gísladóttir, Freyja Jónsdóttir and Martin Ingi Sigurðsson

Inngangur: Ópíóíðar eru öflug verkjalyf, almennt ætluð til skammtímanotkunar en við langvarandi notkun aukast líkur á aukaverkunum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi, nýgengi, áhættuþætti og klínískar útkomur sem tengdust notkun ópíóíða meðal sjúklinga sem lögðust inn á Landspítala.

Efniviður og aðferðir: Aftursýn lýsandi hóprannsókn, sem náði yfir innlagnir allra sjúklinga, 18 ára og eldri, sem lögðust inn á vegum lyflækninga á Landspítala frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2020. Sjúklingum var skipt upp eftir notkunarmynstri ópíóíða og flokkuðust sem krónískir notendur ef þeir höfðu leyst út ópíóíða á árinu fyrir innlögn, ekki notendur ef þeir leystu hvorki út ópíóíða á árinu fyrir innlögn né 180 dögum eftir útskrift, nýir skammtímanotendur ef þeir leystu út ópíóíða á dögum 0-90 frá útskrift og nýir langvarandi notendur ef þeir leystu út ópíóíða á dögum 0-90 og 90-180 frá útskrift.

Niðurstöður: Heildarfjöldi innlagna á tímabilinu voru 85.942. Meðal þeirra voru 50,7% (95% öryggisbil (ÖB), 50,4%-51,0%) krónískir notendur. Af þeim sem ekki höfðu leyst úr ópíóíða árið fyrir innlögn voru 15,5% (95% ÖB, 15,2%-15,9%) sem hófu nýja notkun. Meðal nýrra notenda voru 28,5% (95% ÖB, 27,4%-29,6%) sem urðu nýir langvarandi notendur. Langvinn lungnateppa og heilabilun, ásamt notkunar tveggja eða fleiri mismunandi ópíóíða, morfíns og oxýkódons höfðu aukin gagnlíkindi fyrir nýrri langvarandi notkun meðal nýrra notenda.

Ályktanir: Notkun ópíóíða í kjölfar innlagnar á lyflækningadeild er algeng og nýgengi langvarandi notkunar er hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á mikilvægi þess að rannsaka þurfi aðferðir sem gætu gagnast við endurmat á meðferðum og lágmarkað ópíóíðanotkun.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.