Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Útkoma ljósmæðrastýrðra eininga innan og utan sjúkrahúsa – Kerfisbundin fræðileg samantekt

Aðalhöfundur: Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Berglind Hálfdánsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði. Ólöf Ásta Ólafsdóttir, Háskóli Íslands, Heilbrigðisvísindasvið, Hjúkrunarfræðideild, Námsbraut í ljósmóðurfræði.

Inngangur: Ljósmæðrastýrðar einingar eru að ryðja sér til rúms sem valkostur fyrir heilbrigðar konur í eðlilegri meðgöngu. Markmið þessrar samantektar var að skoða fæðingarútkomu kvenna og barna og inngrip í fæðingar hjá heilbrigðum konum í eðlilegri meðgöngu sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum, innan eða utan sjúkrahúsa, og bera saman við útkomu hraustra kvenna sem ætla að fæða á þverfræðilegum fæðingardeildum sjúkrahúsa. Tilgangur samantektarinnar var að efla ljósmæður í meðgönguvernd í fræðslu um val á fæðingarstað.

Efniviður og aðferðir: Framkvæmd var kerfisbundin, fræðileg samantekt. Gerð var heimildaleit á leitarsíðunum Scopus, Cinahl, PubMed og Proquest. Notuð voru leitarorðin ljósmæðrastýrð eining (e. midwifery unit), fæðingarheimili (e. birth center), fæðingastaður (e. birthplace), útkoma (e. outcome) og ljósmóðurfræði (e. midwifery). Eftir mat á 459 rannsóknum stóðu eftir tíu sem uppfylltu inntökuskilyrði og stóðust gæðamat (ljósmæðrastýrðar einingar: n=102.888; þverfræðilegar fæðingardeildir: n=820.679).

Niðurstöður: Rannsóknir benda til þess að betri útkoma sé hjá heilbrigðum konum sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum en þeim sem ætla að fæða á þverfræðilegum fæðingardeildum. Meiri líkur voru á sjálfkrafa, eðlilegri fæðingu og minni líkur á inngripum á borð við mænurótardeyfingu, hríðarörvun, áhaldafæðingu og keisaraskurði. Almennt voru minni líkur á spangarklippingu og blæðingu eftir fæðingu á ljósmæðrastýrðum einingum. Flutningstíðnin var 14,8% – 33,9%, hærri hjá frumbyrjum en fjölbyrjum. Ekki var marktækur munur á útkomu nýbura.

Ályktanir: Við val á fæðingarstað ætti að upplýsa konur um ólíka útkomu fæðinga á ólíkum fæðingarstöðum, þar á meðal um lága inngripatíðni og jákvæða útkomu hraustra mæðra sem ætla að fæða á ljósmæðrastýrðum einingum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.