Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Þróun nýrra starfsaðferða í kjölfar samþættingar eftirlits með hjartabilun: Vettvangsrannsókn

Aðalhöfundur: Kristín Björnsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Tilgangur: Lýsa mótun nýrrar starfsaðferðar við eftirlit og meðferð fólks með langt gengna hjartabilun sem býr heima í samvinnu heimahjúkrunar og göngudeildar um hjartabilun á Landspítal.

Efniviður og aðferð: Rannsóknaraðferð var vettvangsrannsókn og úrtak var tilgangsúrtak sem valið var í samvinnu við teymisstjóra með hliðsjón af viðmiðum rannsóknar. Gögn voru skrifaðar lýsingar rannsakanda á vitjunum, viðtöl við hjúkrunarfræðinga (N=7), sjúklinga (N=10) og aðstandendur (N=10), auk útgefinna gagna. Við greiningu gsgna var byggt á  aðferðum vettvangsrannrókna og kerfisbundinni þéttingu texta (e.systematic text condensation).

Niðurstöður: Starfsaðferðin felst í eftirliti og viðbrögðum við hjartabilun á heimilum fólks með fræðslu til sjúklinga um æskilega lifnaðarhætti og eftirlit með einkennum hjartabilunar svo hægt sé að bregðast við í tíma. Sjúklingar eru hvattir til sjálfsumönnunar. Verkefnið er útfært sem samvinna heimahjúkrunar, sjúklinga og aðstandendur sem byggir á trausti, gagnkvæmum skilningi og sveigjanlegri verkaskiptingu þannig að verkefni flæði milli aðila. Sjúklingarnir bjuggu við margþætt og flókin  heilsufarsvandamál, auk erfiðleika sem tengdust fyrri reynslu og samböndum. Þetta útheimtir flókna þekkingu og færni hjúkrunarfræðinganna umfram þekkingu sem tengist hjartabilun. Auk þess að fylgja verklagi verkefnisins kallaði hjúkrun þessara einstaklinga því á fjölbreytt inngrip eins og aðstoð við eftirlit, meðferð og leiðir til að líða vel, auk viðurkenningar og skilnings á erfiðleikum. Aðstandendur veittu  víðtækan stuðning sem virtist álitinn sjálfsagður, en utan formlegrar þjónustu og kallaði því ekki á athygli starfsmanna.

Ályktanir: Nauðsynlegt er að víkka skilning á eðli hjartabilunareftirlits í heimahjúkrun með því að gefa tækifæri fyrir sveigjanleika hvað snertir ábyrgð á verkefnum og nauðsynlegt er að skoða stöðu aðstandenda.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.