Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Þrálát einkenni COVID-19. Þróun einkenna frá smiti og þar til þremur til sex mánuðum síðar

Aðalhöfundur: Sigríður Zoëga
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Aðgerðasvið Landspítala

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Helga Jónsdóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Meðferðasvið Landspítala. Elín J.G. Hafsteinsdóttir, Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala. Katrín Blöndal, Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Hans Haraldsson, Menntavísindastofnun Háskóla Íslands. Brynja Ingadóttir, Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Skrifstofa framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítala.

Inngangur: Frá því að heimsfaraldur SARS-CoV-2 byrjaði í febrúar 2020 hafa 6119 tilfelli greinst og 29 látist á Íslandi. Sjúklingar hafa lýst þrálátum einkennum í kjölfar sýkingar og rannsóknir benda til þess að einkenni geti varað lengi, jafnvel hjá þeim sem ekki urðu alvarlega veikir. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna einkenni einstaklinga sem fengu COVID-19 á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þetta var lýsandi þversniðskönnun. Þátttakendur voru einstaklingar, ≥18 ára og sem voru með jákvætt PCR-próf fyrir SARS-CoV-2. Spurningalisti sem innihélt EQ-5-D lífsgæðamælitækið, HADS kvíða-depurðarkvarða, spurningar um einkenni COVID-19 og bakgrunn var sendur í pósti, en upplýsingar um klínískar breytur voru fengnar úr sjúkraskrá. Sjúklingar svöruðu bæði um líðan í einangrun og þegar þeir svöruðu spurningalista 3-6 mánuðum frá smiti. Gerð er grein fyrir gögnum úr 1. bylgju sjúkdómsins en gagnasöfnun úr 2.-3. bylgju stendur yfir.

Niðurstöður: Þátttakendur voru 926 (60% svarhlutfall) á aldrinum 18-92 (miðgildi 49 ár) og voru karlar 44%. Meðaltal daga frá greiningu var 131. Meðalfjöldi einkenna í einangrun var 12,6 (sf 5,5) en 6,6 (sf 5,5) eftir 3-6 mánuði, 12% sögðust einkennalaus þegar spurningalista var svarað. Algengustu einkennin, 3-6 mánuðum eftir smit, voru þreyta/slappleiki (68%), mæði (53%), bein- og vöðvaverkir (49%). Um 25% þátttakenda fann enn fyrir mikilli þreytu/slappleika, 12% voru með mikla verki og mæði og 9% voru með mikla truflun á bragð- og lyktarskyni 3-6 mánuðum síðar.

Ályktanir: Þrálát einkenni í kjölfar COVID-19 eru algeng en tíðni og styrkleiki einkenna minnka með tímanum. Fylgjast þarf áfram með alvarleika einkenna og meta þörf fyrir endurhæfingu sjúklinga.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.