Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Súrefnismælingar í sjónhimnu fólks með kerfisbundinn súrefnisskort og sjúkdóma í miðtaugakerfi

Aðalhöfundur: Þórunn Scheving Elíasdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild HÍ, Svæfing Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Ólöf Birna Ólafsdóttir, Læknadeild HÍ, Augnlækningar Landspítali. Anna Bryndís Einarsdóttir, Læknadeild HÍ, Taugalækningar Landspítali. Sveinn Hákon Harðarson, Læknadeild HÍ. Robert Arnar Karlsson, Læknadeild HÍ. Einar Stefánsson, Læknadeild HÍ, Augnlækningar Landspítali.

Inngangur: Sjónhimnan er hluti miðtaugakerfisins og sjónhimnuæðar því miðlægar æðar sem samsvara súrefnisástandi miðtaugakerfisins að nokkru leyti og súrefnisflutningi miðlægra slagæða til heilans. Sjónhimnu- súrefnismælingar meta súrefnismettun í slag- og bláæðum sjónhimnunnar án ífarandi tækni. Nýlega rannsóknir sýna að meinafræðilegar breytingar í heila vegna taugahrörnunarsjúkdóma megi greina í sjónhimnunni. Mæling á súrefnismettun sjónhimnuæða má mögulega hjálpa til við greiningu lífmerkja í miðtaugakerfissjúkdómum.

Efniviður og aðferðir: Sjónhimnu-súrefnismælirinn samanstendur af augnbotnamyndvél, ljósdeili, stafrænni myndavél og  hugbúnaði sem les úr myndunum. Ljósdeilirinn sér til þess að súrefnismælirinn tekur myndir af sama svæðinu með tveimur bylgjulengdum samtímis. Hugbúnaðurinn velur síðan mælipunkta í slag- og bláæðlingunum og reiknar ljósþéttnihlutfallið og súrefnismettun blóðrauðans. Hugbúnaðurinn mælir jafnframt æðavídd sjónhimnuæða og er því óbeinn mælikvarði á blóðflæðið.

Niðurstöður: Við kerfisbundinn súrefnisskort vegna alvarlegrar langvinnar lungnateppu og Eisenmenger syndrome mældist súrefnismettunin í slag- og bláæðlingum marktækt lækkuð samanborið við heilbrigða. Hjá  fólki með meðalsvæsinn (moderate) Alzheimer´s sjúkdóm og MCI reyndist súrefnismettunin marktækt hækkuð. Nýlegar mæliniðurstöður í MCI sýna marktæka hækkun á súrefnsmettun í bláæðlingum en óbreytta í slagæðlingum samanborið við heilbrigða.

Ályktanir: Sjónhimnu-súrefnismælirinn nemur kerfisbundinn súrefnisskort í miðlægum æðum sjónhimnunnar og gefur vísbendingu um greininingu lífmerkja í heilasjúkdómum eins og við Alzheimer´s og MCI. Þörf er á frekari ferilrannsóknum (cohort studies) hjá fólki með miðtaugakerfissjúkdóma til að staðfesta gagnsemi aðferðarinnar til að greina og fylgjast með framgangi slíkra miðtaugakerfissjúkdóma.  Smækkun tækjabúnaðarins í handheldan búnað mun gera kleift að sannreyna gagnsemi sjónhimnu-súrefnismælinga hjá alvarlega veikum sjúklingum.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.