Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Súrefnisbúskapur sjónhimnuæða í augnsjúkdómum með sjónhimnurýrnun; gláka og aldursbundin augnbotnahrörnun

Aðalhöfundur: Ólöf Birna Ólafsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands, Landspítali

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Einar Stefánsson, Háskóli Íslands, Landspítali. Evelien Vandewalle, KU Leuven. Ingeborg Stalmans, KU Leuven. Jan Van Eijgen, KU Leuven. Joao Barbosa Breda, KU Leuven. Róbert Arnar Karlsson, Háskóli Íslands, Oxymap ehf.. Sveinn Hákon Harðarson, Háskóli Íslands. Þórunn Scheving Elíasdóttir, Háskóli Íslands, Landspítali.

Inngangur: Vísbendingar eru um að súrefnismettun í sjónhimnuæðum hjá sjúklingum með gláku sé frábrugðin heilbrigðum einstaklingum. Sama gildir um aðra sjúkdóma með sjónhimnuhrörnun líkt og í aldursbundinni augnbotnahrörnun (e. AMD). Tilgangur rannsóknanna var að skoða þessar breytingar ásamt því að kanna hvort súrefnisbúskapur sjónhimnu breytist í framsækinni gláku.

Efniviður og aðferðir: Súrefnismettun sjónhimnuæða var mæld í tveimur augnsjúkdómum (gláka og AMD) ásamt heilbrigðum einstaklingum. Rannsóknirnar voru unnar á nokkurra ára tímabili í Reykjavík og einnig í Leuven, Belgíu. Sjúklingahóparnir voru misstórir en sama aðferð notuð á alla, þ.e. súrefnismettun mæld með súrefnismæli frá Oxymap ehf. Eldri gögnin voru greind með eldri útgáfu af greiningarhugbúnaði (Oxymap analyzer v.2.5.1). Nýrri gögn (rannsókn í framsækinni gláku) eru greind með nýjum, sjálfvirkum hugbúnaði (v.3.0).

Niðurstöður: Í gláku fannst endurtekin jákvæð fylgni milli minnkaðrar súrefnisupptöku og aukinna sjónsviðsskemmda (p=0.0013-0.003) ásamt því sem minni upptaka á súrefni mældist í gláku samanborið við heilbrigða einstaklinga (p=0.021). Í AMD mældist aukin súrefnistmettun í bláæðlingum með hækkandi aldri, öfugt við heilbrigða þar sem súrefnismettun í bláæðlingum lækkar með aldri (p=0.026).

Ályktanir: Ljóst er að súrefnisbúskapur í sjónhimnu breytist í sjúkdómum líkt og gláku og AMD. Í báðum sjúkdómum rýrnar sjónhimnan sem eflaust leiðir til minnkaðrar súrefnisnotkunar. Áhugavert er að kanna hvort hægt er að mæla framgang sjúkdóms líkt og gláku með súrefnismælingum og munu niðurstöður þess efnis liggja fyrir á ráðstefnunni.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.