Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Stoðkerfisverkir og áhrif þeirra á daglegar athafnir og hegðun íslenskra barna með barnagigt

Aðalhöfundur: Svanhildur Arna Óskarsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Landakot, Landpítali.

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Þjóðbjörg Guðjónsdóttir, Námsbraut í sjúkraþjálfun, Heilbrigðisvísindasvið, Háskóli Íslands. Auður Kristjánsdóttir, Bjarg Endurhæfing. Judith Amalía Guðmundsdóttir, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Sólrún W. Kamban, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Zinajda Alomerovic Licina, Barnaspítali Hringsins, Landspítali. Drífa Björk Guðmundsdóttir, Barnaspítali Hringsins, Landspítali

Inngangur: Stoðkerfisverkir eru algengir hjá börnum með barnagigt og geta haft áhrif á líf þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að meta algengi og magn verkja, verkjahegðun og áhrif verkja á daglegar athafnir og líðan hjá börnum með barnagigt á Íslandi samanborið við jafnaldra þeirra.

Efniviður og aðferð: Rannsóknin er tilfella-viðmiðarannsókn með þversniði. Þátttakendur voru börn á aldrinum 8-18 ára. Börn og forsjáraðilar svöruðu þremur spurningalistum mælitækja safnsins Patient-Reported Outcome Measurement Information System (PROMIS) um magn verkja, verkjahegðun og áhrif verkja á daglegar athafnir og líðan. Virkni sjúkdóms var metin af barnalækni.

Niðurstöður: 28 börn með barnagigt og 36 börn í samanburðarhópi tóku þátt í rannsókninni. Marktækt fleiri börn með barnagigt voru með verki borið saman við samanburðarhóp (p=0,02). Börn með barnagigt voru einnig með meiri verki (p=0,009), sýndu meiri verkjahegðun (p=0,006) og upplifðu meiri áhrif verkja á daglegar athafnir (p=0,002) en samanburðarhópur. Einnig kom í ljós að börn með barnagigt sem voru með verki upplifðu að verkir höfðu meiri áhrif á daglegar athafnir þeirra (p=0,023) en sá hópur barna í samanburðarhópnum sem hafði verki á tímabilinu. Ekki var marktækur munur á milli þessara hópa hvað varðar magn verkja (p=0,102) og verkjahegðun (p=0,058).

Ályktanir: Þar sem börn með barnagigt upplifa verki sem hafa mikil áhrif á hegðun og daglegar athafnir er mikilvægt að bjóða upp á góða eftirfylgni þar sem hugað er að líkamlegri og andlegri líðan. Sjúkraþjálfun sem felur í sér verkjameðferð og bætingu á daglegri getu er nauðsynlegur hluti af meðferð barna með barnagigt.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.