Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Staða og breyting á þörfum og þjónustu skjólstæðinga heimahjúkrunar á 10 ára tímabili

Aðalhöfundur: Inga Valgerður Kristinsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands

Inngangur: Yfirvöld hafa hvatt til áframhaldandi búsetu aldraðra á eigin heimilum eins lengi og kostur er í stað flutnings á hjúkrunarheimili. Í þessari rannsókn er kannað hvort breytingar hafi orðið á líkamlegri og vitrænni færni einstaklinga sem njóta heimahjúkrunar á 10 ára tímabili. Auk þessa er skoðað hvort breytingar hafi orðið á formlegri þjónustu til skjólstæðinga heimahjúkrunar og hvort þeir sem þurfi mest á þjónustu að halda njóti hennar.

Efniviður og aðferð: Megindleg rannsókn þar sem niðurstöður tveggja evrópskra rannsókna, AdHOC og IBenC, sem gerðar voru með rúmlega 10 ára millibili voru bornar saman. Í báðum þessum rannsóknum voru skjólstæðingar heimahjúkrunar 65 ára og eldri metnir með interRAI Home Care mati á árunum 2001 og 2014.

Niðurstöður: Samanburður leiddi í ljós að skjólstæðingar heimahjúkrunar eru með verri líkamlega og vitræna færni nú en fyrir um 10 árum. Einnig kom í ljós að í þeim 5 löndum sem hægt er að bera saman hafði formleg þjónusta marktækt aukist í klukkustundum talið. Meirihluti skjólstæðinga sem eru með verulega líkamlega og vitræna skerðingu fá meiri formlega þjónustu en þeir sem eru með betri líkamlega og vitræna færni.

Ályktanir: Segja má að stefna stjórnavalda hafi að einhverju leiti borið árangur. Til að mæta vaxandi þörf skjólstæðinga fyrir aðstoð hafa stjórnvöld aukið framboð sitt á formlegri þjónustu, sem er þó mjög mismunandi á milli landa. Í þessari rannsókn er ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvaða aðstoð var veitt en þeir sem voru með mikla líkamlega eða vitræna skerðingu fengu meiri formlega aðstoð en þeir með minni skerðingu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.