Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Reynsla af hjúkrun á framlínu legudeildum Landspítala í fyrstu bylgju Covid-19 faraldursins

Aðalhöfundur: Marianne Elisabeth Klinke (flytjandi)
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Berglind Guðrún Chu (flytjandi), Landspítali Háskólasjúkrahús. Sigríður Heimisdóttir, Landspítali Háskólasjúkrahús, (flytjandi).

Inngangur: Covid 19 heimsfaraldurinn hefur leitt í ljós mikilvægi heilbrigðisstarfsfólks í hjúkrun sjúklinga, smitrakningu og forvörnum. Í þessarri eigindlegu rannsókn er veitt innsýn í reynsluheim heilbrigðisstarfsfólks á framlínulegudeildum Landspítala í fyrstu bylgju faraldursins.

Efniviður og aðferðir: Gagna var aflað með 13 rýnihópaviðtölum við fimm til níu viðmælendur í hverjum hópi, samtals 87 (79 konur). Þátttakendur voru hjúkrunarfræðingar (n=36), sjúkraliðar (n=22), nemar (n=19) og bakvarðasveit (n=10) sem unnu á 2 framlínulegudeildum Landspítalans. Meðalaldur þátttakenda var 40 ár (spönn 20-70). Gögn voru þemagreind með aðferð Braun og Clarke.

Niðurstöður : Fjögur þemu voru greind:  a) Aðlagast nýjum veruleika í óvissunni b) Hlífðarbúnaður sem (ó)vinur c) Vera á tánum—sýna samhygð á hlaupum og d) Starfið heltekur lífið. Starfsfólkið notaði margvísilegar leiðir til að aðlagast óvissunni og endalausum breytingum á meðan á faraldrinum stóð. Starfið hafði viðtæk sálfélagsleg og líkamleg áhrif, sérstaklega hlífðarbúnaðurinn sem yfirgnæfði allt bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt. Mörkin á milli starfs og einkalífs voru óskýr. Allir voru samstíga í að láta hlutina ganga og starfsandinn var jákvæður þrátt fyrir dauðans alvöru, frelsisskerðingu og stimplun vegna smithræðslu.

Umræða/Ályktanir:  Niðurstöður veita nýja sýn á hjúkrun alvarlega veikra sýktra einstaklinga. Hjúkrunin hafði viðtæk áhrif á þátttakendur. Óvissan og hættan sem þau settu sig í til að geta annast sjúklingana var veruleg og kom  m.a. fram í margbreytilegri vanlíðan samtímis því að starfsfólkið var lausnamiðað og samstíga. Mikilvægt er að þróa frekari aðferðir við umönnun slíkra sjúklinga sem samhliða hágæðaumönnun tryggir öryggi og velferð starfsfólks innan sem utan vinnu.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.