Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2021

Rétt staðsetning barkarennu hjá nýburum

Aðalhöfundur: Arna Ýr Karelsdóttir
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands

Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Elín Ögmundsdóttir, Barnaspítali Hringsins. Iðunn Leifsdóttir, Landspítali. Þórður Þórkelsson, Barnaspítali Hringsins.

Inngangur: Við öndunarvélarmeðferð á nýburum er mikilvægt að endi barkarennu sé rétt staðsettur í barka. Rennan er ýmist fest við nös eða vör. Með notkun núgildandi viðmiða við áætlun staðsetningar barkarennu þarf að endurstaðsetja hana í allt að 50% tilvika. Markmið rannsóknarinnar var að útbúa reiknilíkan til að áætla á áreiðanlegan hátt út frá klínískum upplýsingum hvar staðsetja skuli barkarennu hjá nýburum við nös eða vör. Einnig var borin saman nákvæmni þess að festa barkarennu við nös eða munn.

Efniviður og aðferðir: Þýðið samanstóð af öllum börnum sem voru barkaþrædd á Vökudeild Landspítalans 2005-2019. Klínískar upplýsingar fengust úr gagnagrunni deildarinnar. Út frá röntgenmyndum og gæsluskrám var rétt staðsetning barkarennu við nös eða vör reiknuð út. Með línulegri aðhvarfsgreiningu var reiknilíkan smíðað út frá þeim klínísku breytum sem höfðu línulegt samband við kjörstaðsetningu.

Niðurstöður: Í rannsókninni voru 464 börn, 311 með barkarennu festa við nös (N-hópur) og 153  við vör (O-hópur). Meðalfjarlægð frá kjörstaðsetningu í N-hóp var 5,9 mm og 10,6 mm í O-hóp (p<0,01). Samsett líkön fyrir fjórar breytur (meðgöngulengd, fæðingarþyngd, -lengd og höfuðummál) gáfu R2=0,8272 (við nös) og R2=0,7365 (við vör). Líkönin sögðu til um rétta staðsetningu barkarennunnar við nös í 93% tilvika og munn í 92% tilvika.

Ályktanir: Reiknilíkönin sem smíðuð voru eru nákvæmari en þau viðmið sem notuð hafa verið hingað til og þau gætu orðið til að fækka tilvikum þar sem endurstaðsetja þarf barkarennu og fækkað fylgikvillum tengdum rangt staðsettri barkarennu. Niðurstöðurnar benda til þess að barkaþræðing um nef sé nákvæmari m.t.t. staðsetningar en um munn.

FARA Í MÁLSTOFU

Deildu þessu ágripi

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.