Aðalhöfundur: Helena Hamzehpour
Vinnustaður eða stofnun: Háskóli Íslands
Meðhöfundar, stofnun eða fyrirtæki:
Bergþóra S. Snorradóttir, Háskóli Íslands. Helgi Jónsson, Háskóli Íslands.
Inngangur: Slitgigt í höndum er algengur stoðkerfissjúkdómur sem eins og er hefur engin sjúkdómsbreytandi lyf. Nýlega fannst að áhættu-genasamsætur í ALDH1A2 geninu tengjast handaslitgigt. Þetta ensím er ábyrgt fyrir að hvata hvarf retinaldehýðs í retínósýru. Einstaklingar sem bera þessa áhættu-genasamsætur hafa lægri tjáningu á ALDH1A2 og þar af leiðandi minna aðgengi retínósýru í liðbrjóski. Talið er að hægt sé að nýta tazaróten, þriðju kynslóð retínóíð, til meðferðar við handaslitgigt.
Aðferðir: Rannsakað var hvort að hægt væri að koma tazaróten í gegnum húð og inn í liðbrjósk. Það var gert með Franz flæðisellu tilraunum, húðlaga-límbands prófunum (tape stripping) og svínsliða skoðunum. OECD leiðbeiningum var fylgt í öllum prófunum. Notað var 1 mg af tazaróten og sett ofan á húðina eða liðinn í hvert sinn. Öll sýni í rannsókninni voru magngreind með massagreini.
Niðurstöður: Flæði tazarótens fylgdi ekki venjulegum losunarprófíl. Húðlaga-límbands prófanirnar leiddu í ljós að magn tazarótens minnkar með aukinni dýpt í húðina. Aðeins brot af lyfinu frásogast í gegnum húð, eða um 2,55% af tazaróteni úr próflausninni. Af gögnum sem safnað var í svínsliða skoðununum var ljóst að lyfið kemst í liðbrjóskið og í sambærilegu magni í báðum liðum.
Ályktanir: Ransóknin staðfesti að virka lyfjaefnið, tazaróten, kemst í gegn um húðina og safnast upp í liðbrjóski í greinanlegu magni. Hins vegar er ljóst að oxun tazarótens og tazaroten-sýru á sér stað. Til að auka magn lyfsins í viðtakahólfinu eða liðbrjóskinu mætti bæta við askorbínsýru þar sem það myndi draga úr oxun efnanna.