Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Vestibular/Ocular Motor Screening (VOMS) og íþróttatengdur heilahristingur: Íslensk þýðing og rannsókn á próffræðilegum eiginleikum mælitækisins

Höfundar:
Sigurlaug Mjöll Jónasdóttir, Bergþóra Baldursdóttir, Sólveig Ása Árnadóttir

Inngangur. Vestibular/Ocular Motor Screening (VOMS) er mælitæki sem notað er til að skima fyrir einkennum frá andar- og sjónhreyfikerfi eftir íþróttatengdan heilahristing. Slík einkenni tengjast hægara bataferli og seinkaðri endurkomu til leiks. Markmið rannsóknarinnar var að þýða VOMS úr ensku yfir á íslensku og rannsaka próffræðilega eiginleika þýðingarinnar.

Efniviður og aðferðir. Þýðingarferlið byggði á stöðluðum leiðbeiningum um þýðingar á mælitækjum á milli tungumála og menningarsvæða. Rannsóknin í kjölfarið var aðferðafræðileg og byggð á úrtaki 9-40 ára kvenna og karla í boltaíþróttum. Hugsmíðarréttmæti var forprófað með samanburði (Mann-Whitney U próf) á niðurstöðum VOMS hjá einkennahópi (n=8) og pöruðum einkennalausum viðmiðunarhópi (n=8). Cronbach alfa (α) var reiknað út til að forprófa innri áreiðanleika, byggt á gögnum frá einkennahópi (n=8). Þátttakendur í einkennalausa hópnum (n=26) voru prófaðir þrisvar af tveimur matsmönnum til að rannsaka áreiðanleika endurtekinnar prófunar og áreiðanleika matsmanna með því að reikna út prósentusamræmi heildarstiga VOMS, sjö VOMS prófþátta og meðalfjarlægðar samrunarpunkts.

Niðurstöður. Hugsmíðarréttmæti íslenskrar þýðingar VOMS birtist í því að einkennahópurinn, samanborið við einkennalausa viðmiðunarhópinn, skoraði hærra á heildarstigum VOMS (p=0,015) og öllum VOMS prófþáttum (p=0,002-0,015). Innri áreiðanleiki VOMS var mjög góður (α=0,89). Áreiðanleiki endurtekinnar prófunar var mjög góður, prósentusamræmi heildarstiga var 96,2%. Áreiðanleiki matsmanna var góður, prósentusamræmi heildarstiga var 88,5%.

Ályktanir. Íslensk útgáfa af VOMS er tilbúin til notkunar. Niðurstöðurnar benda til þess að próffræðilegir eiginleikar séu góðir og endurspegli það sem birst hefur í rannsóknum á upprunalegu útgáfunni. VOMS er mikilvæg viðbót við önnur mælitæki á íslensku sem notuð eru til að skima fyrir einkennum eftir íþróttatengdan heilahristing.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.