Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Vefsíðan Hvar viltu fæða barnið þitt? Þróun og forprófun á ákvarðanatæki fyrir verðandi foreldra

Telma Ýr Sigurðardóttir and Emma Marie Swift

Bakgrunnur: Á Íslandi standa barnshafandi konum til boða val um sjúkrahús, fæðingarheimili og heimafæðingu til fæðingar. Árið 2023 fæddust 4.307 börn á landsvísu, 73,7% á kvennadeild Landspítala og fæðingar utan sjúkrahúsa voru 5,5%. Mikilvægi sameiginlegrar ákvarðanatöku fyrir upplýst val barnshafandi kvenna um fæðingarstað hefur mikið verið rannsakað og árið 2023 var ákvarðanatæki í formi vefsíðu þróað í Bretlandi, sem miðar að því að aðstoða konur við valið. Samskonar ákvarðanatæki um val á fæðingarstað er ekki til á Íslandi og eru upplýsingar um fæðingarstaði ekki samræmdar á einum stað.
Tilgangur og markmið: Þróun og forprófun á ákvarðanatæki sett upp sem vefsíða að breskri fyrirmynd, staðfært fyrir íslenskar aðstæður.
Aðferð: 1) Almenn heimildasamantekt um fæðingarstaði á Íslandi ásamt upplýsingum sem líklegt væri að barnshafandi konur þyrftu að hafa aðgengi að til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um fæðingarstað. 2) Ákvarðanatæki í formi vefsíðu með upplýsingum um íslenska fæðingarstaði var þróað og forprófað. Forprófun fór fyrst fram með 13 yfirljósmæðrum á hverjum fæðingarstað. Síðan voru þrjár ljósmæður sem starfað hafa í meðgönguvernd beðnar um að skoða vefsíðuna og gefa endurgjöf.
Niðurstöður og umfjöllun: Forprófun benti til þess að upplýsingarnar sem valdar voru inn á vefsíðuna væru réttar og að vefsíðan gæti reynst gagnleg fyrir ljósmæður í meðgönguvernd og fyrir barnshafandi konur. Ákvarðanatækið hafði svigrúm til bætinga.
Ályktun: Ljósmæður höfðu jákvætt viðhorf til notkunar á vefsíðu með upplýsingum um val á fæðingarstað. Talið er líklegt að hún gæti stutt við sameiginlega ákvarðanatöku barnshafandi kvenna og ljósmæðra.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.