Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Væntingar og reynsla kvenna af fræðslu um háþrýstingssjúkdóma á meðgöngu og fyrstu vikurnar eftir fæðingu: forprófun á spurningalistum og eigindleg innihaldsgreining viðtala

Erla Björk Sigurðardóttir, Brynja Ingadóttir and Helga Gottfreðsdóttir

Bakgrunnur: Háþrýstingssjúkdómar á meðgöngu geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir móður og barn en fræðsla sem tekur mið af væntingum og fræðsluþörfum verðandi mæðra getur stuðlað að betri útkomu. Nær allar barnshafandi konur á Íslandi þiggja þjónustu ljósmæðra í barneignarferlinu og því gefst tækifæri til að huga að heilsueflandi þáttum og valdefla konur þegar háþrýstingssjúkdómar greinast á meðgöngu.
Markmið: Að forprófa matstæki sem inniheldur tvo spurningalista, Expected Knowledge of hospital patients (EKHP) og Received Knowledge of hopstital patients (RKHP), um væntingar til fræðslu og reynslu af fræðslu meðal kvenna með háþrýstingssjúkdóma á meðgöngu og eftir fæðingu. Tilgangur rannsóknarinnar var að þróa fræðsluáætlun fyrir konur með háþrýstingssjúkdóma á meðgöngu.
Aðferð: Lýsandi samanburðarrannsókn þar sem forprófaðir voru spurningalistarnir EKhp og RKhp meðal kvenna á Landspítala með háþrýstingssjúkdóma á meðgöngu og 6-12 vikum eftir fæðingu. Gögnin voru greind með lýsandi tölfræði. Innihaldsgreining var notuð til að greina svör þátttakenda við opnum spurningum.
Niðurstöður: Helstu niðurstöður sýndu að konurnar (N=26) höfðu miklar væntingar til fræðslu á meðgöngu en reynsla af fræðslu sem metin var eftir fæðingu var öllu lægri. Niðurstöður innihaldsgreiningar sýndu m.a. að fræðsluþörfum kvenna var ekki mætt að fullu, þær óskuðu eftir meiri eftirfylgni eftir fæðingu og upplifðu ósamræmi í upplýsingagjöf starfsfólks.
Ályktun: Vísbendingar eru um að þörf sé á umbótum varðandi fræðsluefni fyrir konur með háþrýstingssjúkdóma jafnframt því að samræma upplýsingagjöf starfsfólks. Matstækið, sem forprófað var er talið ákjósanlegt til að meta væntingar til fræðslu og reynslu af fræðslu hjá barnshafandi konum en þörf er á frekari rannsóknum.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.