Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Væg vitræn skerðing, forstig heilabilunar eða saklaus minnisskerðing?

Helga Eyjólfsdóttir, Pétur Henry Petersen, Jón Snædal, Þorkell Elí Guðmundsson, Unnur Diljá Teitsdóttir, Kristinn Johnsen, Magnús Jóhannsson, Ólöf Birna Ólafsdóttir, Sveinn Hákon Harðarson, Einar Stefánsson, Margrét Sturludóttir, Ísak Örn Ívarsson and María K. Jónsdóttir

Inngangur. Væg minnisskerðing er algeng á efri árum og getur valdið einstaklingum áhyggjum. Skilgreind eru tvö stig; upplifuð minnisskerðing og væg vitræn skerðing (Mild Cognitive Impairment) þegar minnisröskun er staðfest með vitrænum prófum. Einstaklingar sem komu með tilvísun til minnismóttöku Landakots og voru metnir á stigi vægrar vitrænnar skerðingar fengu boð um þátttöku í rannsókn á orsökum einkennanna.
Efniviður og aðferðir. 214 einstaklingar, sem vísað var til skoðunar á minnismóttöku LSH á árunum 2014-2017 tóku þátt. Meðalaldur var 72,5 ár og vitræn skerðing mæld með MMSE var almennt væg, eða að meðaltali 27,5 stig.
Niðurstöður. Af þeim 214 sem greindir voru með væga vitræna skerðingu í upphafssamtali fengu 73 (34,1%) greiningu á orsök í kjölfar rannsókna. Taugasálfræðilegt mat sýndi að 26 (12,1%) þátttakenda voru með eðlilega vitræna getu og greiningu því breytt í upplifað minnistap. Boð um eftirfylgni fengu því 116 (54,2%). Tveimur árum síðar voru 49 þeirra (22,9%) enn á stigi vægrar vitrænnar skerðingar en tveir höfðu bætt minni sitt og töldust hafa upplifað tímabundið minnistap. Tíu féllu úr rannsókninni. Eftir tvö ár voru því 22,9% þátttakenda enn með væga vitræna skerðingu.
Ályktanir. Þegar einstaklingur kemur til læknis vegna gleymsku þarf að taka því alvarlega og afla frekari upplýsinga frá nánum ættingjum. Hluti einstaklinga með greinda væga vitræna skerðingu fá greiningu á orsökum einkenna sinna og verulegar líkur eru á framskriði einkenna yfir á stig heilabilunar. Greining á undirliggjandi orsök vægrar vitrænnar skerðingar verður enn mikilvægari þegar líftæknilyf við algengum taugahrörnunarsjúkdómum koma á markað hérlendis.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.