Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Upplifun einstaklinga með langvinna stoðkerfisverki af snjallforriti við heimaæfingar og áhrif á æfingaheldni Eigindleg rannsókn

Ísak Sigfússon and Steinunn Olafsdottir

Bakgrunnur: Sjúkraþjálfarar nota oft æfingameðferðir sem meðferð við stoðkerfisverkjum og er þá gjarnan stuðst við heimaæfingar. Æfingaheldni einstaklinga með langvinna stoðkerfisverki er lítil og getur það haft neikvæð hrif á batahorfur. Markmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif snjallforrits á æfingaheldni heimaæfinga einstaklinga með langvinna stoðkerfisverki og viðhorf þeirra til forritsins.
Aðferð: Rannsóknin er eigindleg með fyrirbærafræðilegri nálgun. Tekin voru sjö viðtöl við einstaklinga með langvinna stoðkerfisverki sem höfðu notað Physitrack/Physiapp-forritið í a.m.k. fjórar vikur. Notast var við hálfstaðlaðan viðtalsramma og viðtölin greind með þemagreiningu.
Niðurstöður: Viðmælendur voru 18-67 ára konur. Gagnagreining leiddi í ljós fimm aðalþemu og sex undirþemu: Framsetning með undirþemunum ‘Notendavænt‘ og ‘Skortur á leiðbeiningum‘. Viðmælendur voru mjög ánægðir með forritið og töldu það notendavænt, þó var leiðbeiningum um notkun forritsins ábótavant; Stuðningur með undirþemunum ‘Öryggi við framkvæmd æfinga‘ og ‘Hvatning‘. Viðmælendur upplifðu stuðning frá forritinu í gegnum leiðbeiningar og ýtt ýta öryggi við framkvæmd heimaæfinga; Upplýsingaflæði með undirþemumum ‘Samskipti við sjúkraþjálfara‘ og ‘Fylgjast með framvindu‘. Viðmælendur töldu það mikinn kost að geta haft samskipti við sjúkraþjálfara í gegnum forritið sem og fylgst með eigin framvindu; Ástundun. Viðmælendur töldu forritið hafa jákvæð áhrif á ástundun heimaæfinga og æfingaheldni; Valmöguleikar og fjölbreytileiki. Viðmælendur lögðu til úrbætur sem sneru að því að auka valmöguleika innan forritsins og frekari einstaklingsmiðun.
Ályktun: Notkun Physitrack/Physiapp-forritsins getur haft jákvæð áhrif á æfingaheldni heimaæfinga einstaklinga með langvinna stoðkerfisverki. Mikilvægt er að slík forrit innihaldi góðar og skýrar leiðbeiningar fyrir heimaæfingar og virðast leiðbeiningar í formi myndbanda vera árangursríkar og efla öryggistilfinningu skjólstæðinga við ástundun heimaæfinga.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.