Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Próffræðilegir eiginleikar íslensku útgáfu HEXACO-60: Ítarviðtöl og staðfestandi þáttagreining

Aðalheiður Magnúsdóttir and Vaka Vésteinsdóttir

Inngangur
HEXACO-60 er persónuleikapróf sem inniheldur sex þætti. Prófið hefur verið þýtt á íslensku og markmið þessarar rannsóknar var að meta próffræðilega eiginleika íslensku útgáfunnar.
Aðferð
Gerðar voru þrjár rannsóknir til þess að meta próffræðilega eiginleika íslensku útgáfu HEXACO-60. Í Rannsókn I (N = 40) voru ítarviðtöl notuð til að leggja mat á möguleg vandamál við atriði listans. Í Rannsókn II (N = 375) var uppfærður listi lagður fyrir rannsóknarpanel Próffræðistofu og RAHÍ og gögnin greind með staðfestandi þáttagreiningu. Rannsókn III (N = 501) var endurtekt á Rannsókn II í úrtaki grunnnema við Háskóla Íslands.
Niðurstöður
Þau vandamál sem komu upp í ítarviðtölum (Rannsókn I) voru greind í þemu og í kjölfarið var orðalagi 17 atriða breytt sem og svarkvarða listans. Niðurstöður Rannsóknar II fyrir uppfærða útgáfu HEXACO-60, sýndu fram á að áreiðanleiki listans var góður en há fylgni var milli þátta. Jafnframt var þáttabygging óviðunandi og sex atriði höfðu lága þáttahleðslu. Niðurstöður Rannsóknar III leiddu í ljós góðan áreiðanleika listans en að öðru leyti voru niðurstöður í ósamræmi við niðurstöður Rannsóknar II. Þættir höfðu lága til fremur lága fylgni sín á milli og þrjú atriði höfðu lága þáttahleðslu en aðeins eitt þeirra hafði einnig lága þáttahleðslu í Rannsókn II.
Ályktanir
Á heildina litið benda niðurstöður þessara rannsókna til þess að próffræðilegir eiginleikar íslensku útgáfu HEXACO-60 séu ekki nógu góðir. Þar að auki virðist samsetning úrtaks hafa áhrif á þáttabyggingu listans. Þessar niðurstöður kalla því á frekari rannsóknir, þar á meðal á innihaldi einstakra spurninga og þáttabyggingu í ólíkum úrtökum.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.