Rebekka Lynch, Thor Aspelund, Fang Fang, Jacob Bergstedt, Arna Hauksdóttir, Filip K. Arnberg, Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, Nancy L. Pedersen and Unnur Valdimarsdóttir
Ýmiskonar áföll hafa verið tengd aukinni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Ofbeldi er algengt áfall en áhrif þess á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hefur aðallega verið rannsakað hjá konum.
Að kanna sambandið á milli sögu um ofbeldi og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma og bólguþáttarins C-Reactive prótín
LifeGene er sænsk langtímarannsókn sem notaði slembiúrtak til að bjóða einstaklingum á aldrinum 18-45 þátttöku á árunum 2011-2016, með 20% þátttökuhlutfall. 26,182 einstaklingar svöruðu netkönnun um félagslega stöðu, sögu um ofbeldi og heilsufar og mættu á rannsóknarstöð þar sem líkamsþyngdarstuðull, blóðþrýstingur og blóðprufur til að mæla langtímasykur, bólguþáttinn C-Reactive prótín, ApoB/ApoA1 hlutfall og heildarkólesteról voru teknar. Lífssaga um ofbeldi var mæld með Life Stressor Checklist-Revised, sem inniheldur sjö spurningar. Við notuðum Poisson aðhvarfsgreiningu til að reikna algengishlutfall (AH) og línulega aðhvarfsgreiningu (B) með öryggisbilum (ÖB) fyrir samfelldar útkomur til að skoða sambandið á milli ofbeldis og áhættuþátta fyrir hjarta-og æðasjúkdóma eftir leiðréttingu fyrir aldri, menntun og hjúskaparstöðu.
23% kvenna og 15% karla höfðu orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni. Einstaklingar sem höfðu orðið fyrir ofbeldi voru líklegri til að reykja (AH 1.87, ÖB: 1.67 – 2.08), að hafa verið greindir með háþrýsting (AH 1.32 ÖB: 1.16, 1.50) og að vera með hærri líkamsþyngdarstuðul (B 0.36 ÖB: 0.25 – 0.48) og bólguþættinum C-Reactive prótín (B 0.09 ÖB: 0.03 – 0.14) en ekki var munur á langtímasykri, apoB/ApoA1 hlutfalli eða heildarkólesteróli. Kynjamunur var óverulegur.
Í hraustu, ungu þýði sænskra einstaklinga er aukning á áhættuþáttum fyrir hjarta-og æðasjúkdóma meðal einstaklinga sem hafa orðið fyrir obeldi, óháð kyni.