Höfundar:
Daníel Hrafn Magnússon, Þorsteinn Ívar Albertsson, Freyja Jónsdóttir, Martin Ingi Sigurðsson
Inngangur: Notkun svefnlyfja er algeng og langvinn notkun þeirra hefur verið tengd við aukna dánartíðni. Markmiðið með þessari rannsókn var að meta tíðni og áhættuþætti fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun eftir skurðaðgerðir meðal þeirra sem ekki voru á svefnlyfi fyrir aðgerðina.
Efni og aðferðir: Afturskyggn rannsókn á sjúklingum sem fóru í skurðaðgerð á Landspítalanum á árunum 2006 til 2019 og höfðu ekki fengið lyfseðil fyrir svefnlyfi einu ári fyrir aðgerðina. Upplýsingar um lyfjaávísanir voru fengnar úr lyfjagagnagrunni landlæknis. Sjúklingar sem fengu lyfseðil fyrir svefnlyfi á tímabilinu 30 dögum fyrir, til 14 dögum eftir aðgerð voru skilgreindir sem nýir notendur. Þeir sem fengu líka lyfseðil 15 til 365 dögum eftir aðgerð voru skilgreindir sem nýjir langvarandi notendur. Áhættuþættir fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun voru reiknaðir með fjölþátta aðhvarfsgreiningu.
Niðurstöður: Alls fóru 43.297 einstaklingar sem ekki voru á svefnlyfi í skurðaðgerð á rannsóknartímabilinu. Af þeim fengu 4,6% lyfseðil fyrir svefnlyfi á tímabilinu í kringum aðgerðina og tíðni langvarandi svefnlyfjanotkunar hjá þeim hópi var 51,6%. Áhættuþættir fyrir langvarandi svefnlyfjanotkun eftir skurðaðgerð voru aldur, kvenkyn, krabbamein, kransæðasjúkdómur, hjartaskurðaðgerð og brjóstholsskurðaðgerð. Eftir leiðréttingu fyrir sjúklinga- og aðgerðartengdum þáttum sem voru mismunandi milli hópanna var dánartíðni (HH: 1,39, ÖB: 1,22-1,59) hærri hjá nýjum langvarandi notendum svefnlyfja samanborið við þá sem ekki fengu lyfseðil fyrir svefnlyfi eftir skurðaðgerð.
Ályktun: Þó lítill hluti sjúklinga fái ávísað svefnlyfi eftir skurðaðgerðir verður stór hluti þeirra langvarandi notendur lyfjanna. Horfur þeirra sem verða langvarandi notendur svefnlyfja eftir skurðaðgerðir eru verri en þeirra sem ekki fá lyfseðil fyrir svefnlyfi.