Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Næringarástand inniliggjandi sjúklinga með COVID-19 á Íslandi.

Höfundar:
Sandra Dögg Guðnadóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jenný Kaaber, Áróra Rós Ingadóttir

Inngangur: Erlendar rannsóknir benda til að tengsl séu á milli næringarástands sjúklinga og alvarleika COVID-19 kransveirusjúkdóms, lengri legutíma og aukinni tíðni dauðsfalla. Þetta samband hefur ekki verið rannsakað hérlendis. Markmið rannsóknarinnar var að lýsa næringarástandi COVID-19 sjúklinga á Íslandi og að meta hvort næringarástand tengist alvarleika COVID-19.

Aðferðir: Um er að ræða lýsandi afturskyggna rannsókn. Þátttakendur eru sjúklingar sem lögðust inn á Landspítala með COVID-19 28. febrúar 2020 til 19. mars 2021 (n=273). Upplýsingar um þátttakendur voru sóttar í sjúkraskrá. Niðurstöður eru birtar með lýsandi tölfræði og tvíkosta aðhvarfsgreining var notuð til að meta tengsl milli áhættu á vannæringu samkvæmt gildismetnu skimunareyðublaði (litlar, ákveðnar, sterkar líkur á vannæringu) og legutíma >7 daga, gjörgæsluinnlögnum og dánartíðni á meðan á sjúkrahúsdvöl stóð.

Niðurstöður: Samkvæmt skimunareyðublaði voru sterkar líkur á vannæringu meðal 31% sjúklinga sem lögðust inn með COVID-19, 43% með ákveðnar líkur, en litlar líkur voru á vannæringu meðal 26% sjúklinga. Sjúklingar með sterkar líkur á vannæringu voru líklegri til að liggja >7 daga á spítala (p=<0,001), eftir leiðréttingu fyrir aldri, kyni og skráðum fylgisjúkdómum (sykursýki, hjarta- og æðasjúkdómum, lungnasjúkdómum og nýrnasjúkdómum). Alls lögðust 28 sjúklingar með sterkar líkur á vannæringu inn á gjörgæslu en enginn með litlar líkur á vannæringu. Líkur á dauðsföllum virtust einnig meiri meðal sjúklinga með sterkar líkur á vannæringu borið saman við sjúklinga með litlar líkur (p=0,042), eftir leiðréttingu á aldri, kyni og fylgisjúkdómum. Ályktun: Sterkar líkur á vannæringu hjá inniliggjandi sjúklingum með COVID-19 tengist meiri líkum á sjúkrahúsdvöl lengur en 7 daga, gjörgæsluinnlögnum og dánartíðni.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.