Harpa Harðardóttir, Óla Kallý Magnúsdóttir and Áróra Rós Ingadóttir
Bakgrunnur: Vannæring er alvarlegt ástand sem orsakast af skorti á inntöku eða upptöku næringar sem getur leitt til skertrar líkamlegrar og andlegrar starfsemi. Eldri fullorðnir (≥65 ára) hafa tilhneigingu til að verða útsettari fyrir næringarskorti sem tengist aldurstengdum breytingum. Vannæring meðal aldraðra er krefjandi heilsufarsvandamál sem tengist ekki aðeins auknum sjúkdómum og dánartíðni, heldur einnig færniskerðingu sem hefur áhrif á sjálfsbjargarviðleitni og almenn lífsgæði. Hætta á vannæringu meðal aldraðra í þjónustu hjá heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið metin hérlendis en erlendar rannsóknir benda til að allt að 60% af þessum hópi sé í mikilli áhættu fyrir vannæringu.
Markmið rannsóknarinnar var að meta áhættu fyrir vannæringu hjá einstaklingum (≥65 ára) í þjónustu hjá heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu.
Aðferðir: Um er að ræða lýsandi þversniðsrannsókn. Skjólstæðingar (n=200) heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu(≥65 ára) voru skimaðir fyrir áhættu á vannæringu með gildismetnu skimunareyðublaði. Þeir einstaklingar sem metnir voru með sterkar líkur á vannæringu voru skoðaðir nánar og greindir sammkvæmt alþjóðlegum greiningarviðmiðunum fyrir vannæringu. Hluti hópsins (n=10) fékk heimsókn þar sem líkamssamsetningarmæling var framkvæmd og stuttum spurningarlista svarað.
Niðurstöður: Samkvæmt skimunareyðublaði voru 73 (36,5%) einstaklingar með sterkar líkur á vannæringu og 52 (26%) með ákveðnar líkur. Samkvæmt alþjóðlegum greiningarviðmiðunum (GLIM) voru 47 (23,5%) vannærðir og 38 (19,5%) með alvarlega vannæringu.
Ályktun: Þetta er fyrsta rannsóknin sem kannar áhættu fyrir vannæringu meðal aldraðra sem að fá heimahjúkrun á höfuðborgarsvæði Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að mikill meirihluti hópsins er með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu og fjórðungur hópsins var greindur með vannæringu samkvæmt GLIM viðmiðunum.