Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

„Mitt örugga rými.“ Reynsla kvenna af fæðingum án fagaðila á Íslandi: Fyrirbærafræðileg rannsókn

Guðrún Magnúsdóttir, Steinunn H. Blöndal, and Berglind Hálfdánsdóttir

Bakgrunnur: Talið er að fæðingum án aðstoðar fagaðila hafi fjölgað víða í hinum vestræna heimi. Niðurstöður rannsókna benda til þess að í löndum þar sem inngripatíðni í fæðingum er há hafi tíðni fæðinga án aðstoðar fagaðila aukist. Ástæður sem liggja að baki ákvörðunum þessara kvenna geta verið af ýmsum toga.
Tilgangur og markmið: Tilgangur rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu kvenna hér á landi sem hafa fætt án aðstoðar ljósmóður eða annarra fagaðila. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvað búi að baki slíkri ákvörðun.
Aðferð: Notast var við eigindlega aðferðafræði og stuðst við rannsóknaraðferð Vancouver- skólans í fyrirbærafræði. Gagnaöflun var í formi djúpviðtala við fimm konur. Notast var við þemagreiningu við úrvinnslu viðtalanna.
Niðurstöður: Heildargreiningarlíkan á fyrirbærum, sem byggði á greiningu viðtala, var sett fram í formi blóms þar sem meginþemað, „Mitt örugga rými,“ er kjarninn. Undirþemun skiptast í tvennt og eru sex talsins. Fjögur þemu sem tengjast tilfinningum og viðhorfum kvennanna í garð fæðinga eru í krónublöðum blómsins: „Ábyrgðin og valdið er mitt,“ „Ég óttast að missa stjórn,“ „Ég treysti ferlinu“ og „Fæðingin mín er heilög“. Undirþemun tvö sem snúa að ljósmæðrum, „Ljósmæður bundnar af kerfinu“ og „Margræð nærvera ljósmæðra“, eru í laufblöðum á stilki blómsins.
Ályktun: Konur sem velja að fæða án aðstoðar fagaðila taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun um fæðingu sína með valdeflandi upplifun að leiðarljósi. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að ljósmæður þurfi að leita nýrra leiða til að vera talsmenn allra kvenna í barneignarferlinu, sýna þeim virðingu og hafa skilning á ákvörðunum þeirra.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.