Höfundar:
Kristín Þórarinsdóttir
Inngangur: Á gjörgæsludeild eru innlagðir bráð- og alvarlega veikir sjúklingar sem oft þurfa sérhæfða meðferð. Þau umskipti að breyta læknandi meðferð yfir í lífslokameðferð er flókið ferli í hátækni umhverfi eins og á gjörgæsludeild. Tilgangur þessarar rannsóknar er að leitast við að skilja hlutverk og reynslu hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild af því að annast sjúklinga og fjölskyldur þeirra í við lok lífs á gjörgæsludeild.
Efniviður og aðferðir: Gerð var eigindleg rannsókn þar sem tekin voru rýnihópaviðtöl við 17 hjúkrunarfræðinga frá öllum þremur gjörgæsludeildum á Íslandi.
Niðurstöður: Greining gagna leiddi í ljós fjögur þemu. Þemun eru: Umhyggja fyrir sjúklingnum og fjölskyldu hans við lok lifs, Hjúkrunin erfið þegar óvissa er um hvernig og hvenær eigi að draga úr meðferð, Samstarf um markmið meðferðar og Flókin og margþætt hjúkrun. Niðurstöður sýndu að hjúkrunarfræðingar reyndu að gera sitt besta til að stuðla að góðum lífslokum fyrir sjúkling og fjölskyldu hans. Þótt oftast hafi ferlið gengið vel gátu hjúkrunarfræðingarnir upplifað togstreitu og vanlíðan við hjúkrun sjúklingsins þegar meðferðin var orðin íþyngjandi fyrir sjúklinginn. Mikilvægt hlutverk hjúkrunarfræðinganna var að samræma og auðvelda samskipti milli sjúklings, fjölskyldu og lækna, styðja við ákvarðanatöku og sinna fjölskyldum tilfinningalega á meðan ferlinu stendur.
Ályktun: Auka má gæði umönnunar við lok lífs með því að styðja við hjúkrunarfræðinga með fræðslu og að efla samvinnu fagaðila um ákvörðun um meðferðarmarkmið. Til að tryggja samræmi í meðferðarferlinu er mikilvægt að þróa leiðbeiningar um afturköllun á lífsbjargandi meðferð.