Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Langtímaþróun blóðrauða og útkomur hjá sjúklingum með blóðleysi í aðdraganda skurðaðgerða eftir stærð rauðkorna

Höfundar:
Sigurður Benediktsson, Martin Sigurðsson, Sigurbergur Kárason

Inngangur
Blóðleysi í aðdraganda skurðaðgerða er algengt og tengist verri horfum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna útkomur hjá undirhópum sjúklinga með blóðleysi í aðdraganda skurðaðgerða eftir stærð rauðkorna ásamt langtímaþróun blóðrauða árið fyrir og tveimur árum eftir skurðaðgerð.

Efniviður og aðferðir
Þessi afturskyggna ferilrannsókn náði til allra einstaklinga eldri en 18 ára sem undirgengust fyrstu skurðaðgerð á Landspítala árin 2006-2018 og áttu auk þess mælingu á magni blóðrauða innan 30 daga fyrir aðgerð. Sjúklingar með blóðleysi voru flokkaðir í þrjá hópa eftir meðalstærð rauðkorna. Gögn úr blóðprufugrunni voru notuð til að lýsa þróun blóðrauða yfir rannsóknartímabilið.

Niðurstöður
Af 40.979 sjúklingum voru 10.505 (25,6%) með blóðleysi. Rauðkornablóðleysi var algengasta gerð blóðleysis (88,0%). Sjúklingar með blóðleysi voru með hærri byrði undirliggjandi sjúkdóma og áhættu á hrumleika. Eftir leiðréttingu fyrir sjúklinga- og aðgerðartengdum þáttum var áhætta á blóðrauða undir 70 og 90 g/L innan 7 og 30 daga eftir aðgerð meiri hjá sjúklingum með allar gerðir blóðleysis samanborið við sjúklinga án blóðleysis, en aðeins sjúklingar með rauðkornablóðleysi höfðu meiri áhættu á 30 daga andláti. Sjúklingar með allar gerðir blóðleysis höfðu lágan blóðrauða í meira en 100 daga fyrir aðgerð og lægra magn blóðrauða á rannsóknartímabilinu samanborið við sjúklinga án blóðleysis.

Ályktanir
Rauðkornablóðleysi var algengasta gerð blóðleysis og tengdist verri horfum eftir aðgerð. Blóðleysi í aðdraganda skurðaðgerða var til staðar löngu fyrir aðgerð. Þetta bendir til þess að mögulegt sé að vinna upp og meðhöndla blóðleysi áður en aðgerð fer fram, sem gæti dregið úr verri horfum sjúklinga með blóðleysi.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.