Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Kynbundinn munur á hreyfistjórn í hálsi í kjölfar hálsáverka

Höfundar:
Harpa Ragnarsóttir, Kristin Briem, Magnús Kjartan Gíslason, Guðný Lilja Oddsdóttir

Inngangur. Svipuólaáverkar eru heilsufarsvandamál sem einkennist af hreyfi- taugafræðilegum- og sálfélagslegum einkennum og þurfa fjölþætta meðferðarnálgun og snemmbúna greiningu forspárþátta með notkun áreiðanlegra mælitækja. Markmið þessarar rannsóknar er að sýna fram á tengsl milli sjálfsmatsspurningalista og hlutlægra útkomumælinga hjá einstaklingum með meðalbráðan (e. subacute) svipuólaáverka í kjölfar bílákeyrslu.
Aðferðir. 41 þátttakandi (63% konur), 18-66 ára (meðalaldur (SD) 36,8 (12,7)), undirgengust hlutlægar og huglægar mælingar. Þátttökuskilyrði: meðalbráður (≥1, ≤3 mánuðir) svipuólaáverki af gráðu I eða II með miðlungs- til hááhættueinkenni eða skor ≥4/10 á verkjakvarða (e. Visual Analog Scale, VAS). Útkomumælingar: hreyfistjórn (Flugan) og hreyfiferlar háls voru metnir á hlutlægan hátt. Sjálfsmatslistar voru notaðir til að meta magn einkenna frá hálsi (Neck Disability Index (NDI)), verki (VAS), miðlæga verkjanæmingu (Central Sensitization Inventory (CSI)), almenna heilsu (36-Item Short Form Survey Rand edition (RAND)) og mat á hamlandi áhrifum svima (Dizziness Handicap Inventory (DHI)).
Niðurstöður. Meðalskor á öllum mælingum reyndist utan eðlilegra marka. Konur sýndu marktækt meira frávik fyrir „Amplitude Accuracy“ samanborið við karlmenn fyrir auðvelt og miðlungserfitt mynstur á Fluguprófinu (p<0,05). Tölfræðilega marktæk miðlungs-sterk fylgni fannst milli DHI og auðvelds (r=0,6; p=0,05), miðlungs (r=0,5; p=0,05) og erfiðs (r=0,5; p<0,05) Flugumynsturs; milli heildar RAND skors og allra hreyfiferla (r=0,4-0,7; p≤0.05) nema frambeygju (r=0,4; p=0,7), og milli NDI og CSI (r=0,7; p<0,01), VAS (r=0,5; p<0,01), og DHI (r=0,7; p<0,01). Ályktanir. Minni styrkur hálsvöðva og minna þvermál hryggjarliða kvenna geta útskýrt verri hreyfistjórn. Þörf er á einstaklingsbundinni meðferð í kjölfar sérhæfs mats þar sem meðferðaraðilar eru meðvitaðir um hugsanlega kynháða frammistöðu.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.