Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Kóranskóladrengir í Gíneu-Bissá: hungur í heimsfaraldri

Höfundar:
Jónína Einarsdóttir, Hamadou Boiro, Geir Gunnlaugsson

Inngangur: Aðgerðir stjórnvalda til að hefta útbreiðslu Covid-19 hafði neikvæð áhrif á börn víða um heim og þá sérstaklega börn sem búa við erfiðar aðstæður. Í Vestur-Afríku gengur fjöldi drengja í kóranskóla þar sem þeir lúta leiðsögn lærifeðra sinna. Barnaverndarsamtök og alþjóðlegar stofnanir líta á drengina sem fórnarlömb mansals þar sem þeir betla fyrir eigin viðurværi og lærifeðra. Þess er krafist að betl verði bannað. Markmið rannsóknarinnar var að skoða áhrif heimsfaraldursins og aðgerðanna gegn Covid-19 á kóranskóladrengi í Gíneu-Bissá.

Aðferðafræði: Tekin voru hálfstöðluð opin viðtöl við 14 kóranskóladrengi á aldrinum 12-16 ára í júlí 2020 í Bissá og Gabú.

Niðurstöður: Faraldurinn ollu drengjunum miklum þjáningum þrátt fyrir að enginn þeirra hafi sýkst eða nokkur annar sem þeir þekktu. Tekjur þeirra af betli hurfu nánast á svipstundu vegna útigöngubanns, sem fylgt var eftir með lögregluvaldi, og erfiðarar stöðu vildarfólks sem gaf þeim ölmusu, ýmist peninga, mat eða annað. Því þjáðust drengirnir og lærifeður þeirra af hungri og áttu erfitt með að einbeita sér við námið. Nokkrir samnemendur höfðu haldið heim, en viðmælendur, flestir í samráði við foreldra símleiðis, vildu halda áfram með námið. Þeir litu á betl sem hluta námsins og leið til þess að verða virtir leiðtogar og lærifeður í íslömskum fræðum.

Ályktanir: Kóranskóladrengirnir þjáðust af hungri þegar möguleikar til betls nánast hvurfu. Ætla má að það sama gerist verði einhliða banni við betli fylgt eftir. Stjórnvöld og barnaverndarsamtök verða að finna lausn á erfiðri stöðu kóranskóladrengja í samráði við þá, foreldra þeirra og lærifeður.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.