Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

In vitro líkan til að rannsaka tazaróten til meðferðar á handarslitgigt

Höfundar:
Helena Hamzehpour, Bergþóra S. Snorradóttir, Helgi Jónsson, Ólafur E. Sigurjónsson

Handaslitgigt er misleitur sjúkdómur með sterk erfðafræðileg tengsl. Enn sem komið er hafa engin sjúkdómsbreytandi lyf verið þróuð við handaslitgigt, en rannsóknir á erfðatengslum hafa sýnt fram á mikilvægi retínósýru í handaslitgigt. Tazaróten sem er þriðju kynslóðar retínóíði, er því talinn geta haft lækningalega virkni gegn sjúkdómnum. Helstu áskoranir við þróun nýrra lyfja við handaslitgigt í dag eru prófanir þeirra fyrir lyfjasvörun. Markmið rannsóknarinnar var annars vegar að þróa in vitro handaslitgigtarlíkan til að prófa tazaróten og ákvarða 50% frumudrepandi styrk þess (CC50), og hinsvegar að kanna áhrif tazarótens á mismunandi lífmerki sjúkdómsins.

Brjóskfrumur úr höndum heilbrigðra og handaslitgigtasjúklinga sem og IL-1β örvaðar sérhæfðar mesenchymal-stofnfrumur, voru útsettar fyrir mismunandi styrk tazarótens og greindar með tilliti til breytinga á ýmsum lífmerkjum með ensímtengdri mótefnaprófun. Laktat-dehýdrógenasa próf var framkvæmt á heilbrigðum brjóskrumum til að ákvarða CC50 tazarótens.

Marktæk lækkun á TNF-α styrk sást með notkun tazarótens, og merki um að lyfið valdi af-sérhæfingu á brjóskfrumum. Frumrannsóknargögnum fyrir þróun á in vitro handaslitgigtarlíkani var safnað og fyrstu skrefum til að líkja eftir TNF-α og glýkósamínóglýkan styrk í handaslitgigtarfrumurækt var náð. CC50 tazarótens í tvívíddar-frumuræktun reyndist vera 79,80 μM eftir 12 klst og 78,98 μM eftir 48 klst. Í þrívíddarræktun, aftur á móti, voru frumudrepandi áhrif lyfsins marktækt lægri (p<0,05), sem gefur til kynna að CC50 í þrívíddarræktun sé marktækt hærra. Á þessu stigi er ekki enn ljóst hvort tazaróten sýnir sjúkdómsbreytandi eiginleika, hins vegar gefur lækkun þess á TNF-α gildum að minnsta kosti vísbendingu um að lyfið gæti haft gagnleg áhrif á handaslitgigt.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.