Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Flýtum okkur hægt: Neikvæð áhrif hugvíkkandi efna í sálrænni meðferð

Jón Ingi Hlynsson, Moa Nordin, Jakob Håkansson and Per Carlbring

INNGANGUR: Nýverið hafa hugvíkkandi efni rutt sér til rúms í samfélagslegri umræðu. Til að mynda hefur eftirspurn eftir sálfræðilegri meðferð með hugvíkkandi efnum, einkum ofskynjunarefna á borð við psilocybin, aukist samhliða fréttum af mögulegum meðferðarávinningi þeirra. Hins vegar skortir rannsóknir á neikvæðum afleiðingum slíkra efna í meðferðarsamhengi. Þetta erindi greinir frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar sem lagði mat á skammtíma- og langtímaafleiðingar sálrænnar meðferðar með ofskynjunarefninu psilocybin. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR: Viðtöl voru tekin við átta aðila sem veita sálræna meðferð með ofskynjunarefninu psilocybin. Innihald viðtalanna var þemagreint. NIÐURSTÖÐUR: Niðurstöður þemagreiningar leiddu í ljós þrjú þemu neikvæðra skammtímaafleiðinga sálrænnar meðferðar með psilocybin: 1) Neikvæð viðbrögð við meðferð, 2) óæskileg ferli í meðferðarsambandi, og 3) þungbær sjálfsreynsla. Þá greindust fjögur þemu langtímaafleiðinga sálrænnar meðferðar með psilocybin: 1) Sálrænn óstöðugleiki, 2) aðlögunarörðugleikar að meðferð lokinni, 3) flækjur og fylgikvillar í meðferðarsambandinu, og 4) óæskilegar afleiðingar meðferðar. ÁLYKTANIR: Niðurstöðurnar útlista þær fjölþættu áskoranir sem skjólstæðingar geta staðið frammi fyrir vegna notkunar ofskynjunarefna í meðferðartilgangi. Til að mynda undirstrika niðurstöðurnar þörfina á ítarlegu mati, sögutöku og geðskoðun áður en psilocybin inngripi er beitt. Aukinheldur renna niðurstöðurnar stoðum undir mikilvægi sálræns stuðnings að inngripi loknu. Niðurstöðurnar vekja athygli á þáttum sem geta stuðlað að auknu öryggi í sálrænni meðferð með ofskynjunarefnum og upplýst klíníska framkvæmd slíka meðferða. Ljóst er að frekari rannsókna er þörf svo unnt sé að tryggja öryggi skjólstæðinga. Að auki er brýnt að setja siðferðilegar viðmiðunarreglur fyrir beitingu meðferða af þessum toga ef hámarka á möguleg jákvæð áhrif ofskynunaefna í meðferðartilgangi.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.