Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands

Faraldsfræði notkunar benzódíazepín-lyfja í aðdraganda og kjölfar innlagna á lyflæknisdeildir Landspítala

Eygló Sóley Hróðmarsdóttir Löve, Martin Ingi Sigurðsson and Freyja Jónsdóttir

Inngangur: Notkun benzódíazepín-lyfja er vaxandi og áhyggjuvaldandi. Lyfin eru ávanabindandi og hafa sterk tengsl við lyfjatengdan skaða. Notkun lyfjanna er mikil á Íslandi og óljóst hvernig langvinn notkun hefst. Áður hefur verið sýnt að hluti notkunar hefst í kjölfar skurðaðgerðar sem framkvæmd er á Landspítala.
Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á faraldsfræði benzódíazepínnotkunar í aðdraganda og kjölfar innlagna á lyflæknissvið Landspítala og tengsl við útkomur sjúklinganna.
Aðferðir: Rannsókn var afturskyggn ferilrannsókn sem náði utan um allar innlagnir sjúklinga (≥18) á Landspítalanum á árunum 2010–2020. Upplýsingar fengust úr Íslenska lyflækningagrunninum. Sjúklingum var skipt eftir notkunarmynstri benzódíazepín-útleysingar. Algengi og nýgengi benzódíazepín notkunar var mæld. Ein- og fjölbreytugreiningar voru gerðar til að meta tengsl sjúklinga- og innlagnartengdra breyta við nýja og nýja langvinna notkun.
Niðurstöður: Af 75.484 innlögnum leystu 27,3% sjúklinga út benzódíazepín-lyfseðil árið fyrir innlögn. Af þeim sem ekki höfðu leyst út benzódíazepín hófu 6,3% nýja notkun, af þeim hófu 39,4% nýja langvinna notkun. Sjúklingar sem voru kvenkyns eða lögðust inn á sérgreinar blóð-, krabbameins- eða líknarlækninga höfðu aukna hættu á nýrri notkun. Af sjúklingum sem hófu nýja notkun höfðu sjúklingar sem leystu út tvö eða fleiri mismunandi benzódíazepín, voru kvenkyns, með undirliggjandi langvinna lungnateppu eða lögðust inn á sérsviðum hjarta-, meltingar-, lungna-, öldrunar-, blóð- eða krabbameinslækninga aukna hættu á nýrri langvinnri notkun.
Umræður: Nýgengi benzódíazepínnotkunar í kjölfar innlagnar á lyflæknissvið er hátt, og rúmlega þriðjungur nýrra notenda hefja nýja langvinna notkun. Rannsóknin sýndi að nauðsynlegt sé að finna leiðir sem lágmarka notkun benzódíazepína og þróun nýrrar langvinnrar notkunar.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.