Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Fæðuóöryggi meðal háskólanema á Íslandi og áhrif heimsfaraldurs

Höfundar:
Gréta Jakobsdóttir, Brittany Marie Repella, Bryndís Eva Birgisdóttir

Fæðuóöryggi er ótryggur aðgangur að næringarríkum og öruggum mat, sem nálgast má á viðunandi máta. Matur klárast, ekki er til nægir fjármunur til frekari kaupa, tilheyrandi áhyggjur fylgja og einstaklingar láta sér nægja fæðu af verri gæðum. Að búa við fæðuóöryggi í lengri eða skemmri tíma getur haft skaðleg áhrif á heilsu og líðan, m.a. næringarskort, einbeitingarleysi og vanlíðan. Grunnþekking á mat og næringu styrkir einstaklinga til að taka hagkvæmari, heilsusamlegri og öruggari ákvarðanir. Fæðuóöryggi er vaxandi lýðheilsuvandamál og upplýsingar vantar um stöðuna meðal háskólanema á Íslandi og sérstaklega með tilkomu heimsfaraldursins.

Rafrænn spurningalisti var sendur nemendum (janúar 2022). Spurt var um fæðuöryggi, hagi, áhrif COVID-19, lífsstíl og stuðningsnet. Flestir svarenda voru konur (74%, n=688), íslenskir (78%, n=726) og í grunnnámi (53%, n=491).

Tæplega 14% nemenda búa við fæðuóöryggi. Algengasta viðbragðið var að neyta einhæfrar fæðu (21%) og um 3% slepptu því að borða heilan dag. Flestir töldu sig borða svipað magn á meðan á heimsfaraldrinum stóð, þó voru fæðuóöryggir þrisvar sinnum líklegri til þess að borða minna (44% miðað við 13%). Færri fæðuóöryggir nemendur hafa stórt stuðningsnet vandamanna (7%) samanborið við fæðuörugga (31%).

Stór hópur háskólanema býr við fæðuóöryggi sem getur það haft neikvæðar afleiðingar; slæma andlega heilsu, vannæringu og verri námsárangur. Rannsóknir sýna að fæðuóöryggir nemendur fá lægri einkunnir og virðast verr í stakk búin við að mæta breyttum og krefjandi aðstæðum, t.d. heimsfaraldri. Mikilvægt er að kortleggja stöðuna sem gæti nýst í þróun stuðningsúrræða við þá nemendur sem búa við erfiðar aðstæður og þurfa að forgangsraða fjármunum.

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.