Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Fæðingaránægja og einkenni áfallastreituröskunar eftir fæðingu hjá konum á Íslandi

Fjola Drofn Gudmundsdottir, Emma Marie Swift and Kristjana Einarsdottir

Bakgrunnur: Barnsfæðing er mikilfengleg og breytir lífi flestra kvenna, en getur stundum haft neikvæð sálfræðileg áhrif og konur geta þróað með sér einkenni áfallastreituröskunar eftir fæðingu, þó að fæðingin hafi gengið vel og geta orsakir og áhættuþættir verið margir. Hingað til hefur áfallastreituröskun eftir fæðingu ekki verið mæld með mælitækjum sem eru sérhönnuð til að meta hana.
Markmið þessarar rannsóknar er að meta tíðni og áhættuþætti áfallastreituröskunar 6-12 vikum eftir fæðingu hjá konum á Íslandi og meta hvort tengsl séu á milli fæðingaránægju og einkenna áfallastreituröskunar.
Aðferðir: Gögnin komu úr alþjóðlegri þversniðsrannsókn, Intersect. Þátttakendur voru konur á Íslandi, 6-12 vikum eftir að þær fæddu lifandi barn og voru 600 konur í rannsóknarhópnum. Einkenni áfallastreituröskunar eftir fæðingu voru mæld með City Birth Trauma Scale (CityBiTS) og fæðingaránægja var mæld með Birth Satisfaction Scale Revised (BSS-R).
Niðurstöður: Tíðni einkenna áfallastreituröskunar eftir fæðingu hjá konum á Íslandi var 5,7%. Einhleypar konur voru marktækt líklegri til að finna fyrir einkennum, sem og þær sem voru að eignast sitt fyrsta barn, fóru í bráðakeisaraskurð, upplifðu minni ánægju eftir fæðingu, voru með kvíða eða þunglyndi á meðgöngu, voru með heilsukvilla á meðgöngu og sögu um andlega- eða sálfræðilega greiningu.
Ályktun: Þessar niðurstöður gefa til kynna að áfallastreituröskun eftir fæðingu hefur áhrif á að minnsta kosti 5% kvenna eftir fæðingu og er tíðnin svipuð og í öðrum rannsóknum. Ákjósanlegt gæti verið að skima fyrir áfallstreituröskun eftir fæðingu, til að geta hjálpað þeim konum og komið í veg fyrir áhrif áfallastreituröskunar á þær, börn þeirra og fjölskyldur.

 

Sækja PDF

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.