Líf - og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands 2023

Barnavernd á átakasvæðum: Barnvæn svæði í Suður-Kivu, Alþýðulýðveldinu Kongó

Höfundar:
Geir Gunnlaugsson

Inngangur
Alþjóðahreyfing Barnaheilla hefur starfað í Alþýðulýðveldinu Kongó í rúma tvo áratugi. Barnvæn svæði er ein þeirra aðgerða sem samtökin hafa þróað og innleitt til að sinna þörfum barna í neyðaraðstoð. Frá árinu 2020 hafa Barnaheill á Íslandi stutt við framkvæmd barnvænna svæða í Suður-Kiwu við austurlandamæri landsins þar sem átök hafa geisað í áratugi. Hér er markmiðið að lýsa og greina framkvæmd barnvænna svæða í sex þorpum í Suður-Kivu og sem hafa notið aðstoðar samtakanna.

Efniviður og aðferðir
Eigindleg viðtöl voru tekin í mars 2022 í þremur af sex þorpum; þrjú voru ekki aðgengileg vegna ótryggs ástands og erfiðs landfræðilegs aðgengis. Rætt var við sjötíu og fjóra einstaklinga sem tóku þátt í starfsemi barnvænna svæða, t.d. stjórnendur, félagsráðgjafa, sjálfboðaliða og þorpsbúa og um 40-50 börn sem notfærðu sér þjónustuna.

Niðurstöður
Barnaverndarstarfið tók á þörfum barna og fjölskyldna á þeim þremur barnvænu svæðum sem voru heimsótt. Þau voru starfrækt með blöndu af aðgerðum fyrir bæði viðkvæm börn og börn sem vildu leika sér. Börnin, foreldrar og starfsmenn lýstu yfir mikilli ánægju með starfsemina og þá aðstoð sem þeir fengu og vildu meira af því sama og komu með tillögur til úrbóta.

Ályktanir
Barnaverndarstarf er erfitt, ekki síst á stríðshrjáðum svæðum eins og í austurhluta Alþýðulýðveldisins Kongó. Starfsemi í anda barnvænna svæða getur haft í för með sér ávinning fyrir heilsu og vellíðan til skamms og meðallangs tíma fyrir börn sem njóta hennar, nánustu aðstandendur þeirra og nærsamfélagið.

Deildu

Deila á facebook
Deila á Twitter
Deila á Linkdin
Deila á Pinterest
Scroll to Top

Á þessu vefsvæði eru notaðar vafrakökur.